Sjón hefur lítið sem ekkert verið rannsökuð sem áhrifaþáttur í umferðarslysum. Við sjónmælingu á 52 atvinnubílstjórum sem keyra um vegi landsins allt árið um kring við ýmis skilyrði kom í ljós að 14% voru náttblindir og nokkrir þurftu á gleraugum að halda án þess að hafa gert sér grein fyrir því.
„Hugmyndin var að fara út fyrir þessa einföldu sjónmælingu sem er gerð til að fá endurnýjun á ökuskírteini, því menn eru að keyra allar nætur og nú er að koma vetur,“ segir Rúnar Garðarsson, rekstarstjóri hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Allrahanda sem bauð öllum fastráðnum atvinnubílstjórum að gangast undir sjónmælingu.
Það var Sjóvá sem átti frumkvæði að verkefninu, í samvinnu við Allrahanda og gleraugnaverslunina Augað. Markmiðið var að hver og einn bílstjóri gæti fengið úr því skorið hvort sjónin væri í lagi eða hvort hann þyrfti á gleraugum að halda.
Alls var sjón 52 bílstjóra mæld og er meðalaldur þeirra 49,6 ár. Niðurstöðurnar voru athyglisverðar því m.a. kom í ljós kom að einn bílstjóri var nánast sjónlaus við aksturinn og hafði alls ekki gert sér grein fyrir því hversu illa hann sá, fyrr en hann hafði fengið ný gleraugu.
Sjón þriggja bílstjóra mældist það slæm að þeir verða alltaf að nota gleraugu við aksturinn. Auk þess reyndust nokkrir vera með náttblindu sem krefst gleraugnanotkunar þegar ekið er eftir sólsetur. Um 80% aksturstíma Allrahanda er í myrkri eða rökkri.
Að sögn Rúnars tóku bílstjórar Allrahanda mjög vel í sjónmælinguna og voru þeir ánægðir með framtakið. „Þetta skiptir líka öllu máli, að menn viti hvar þeir standa.“
Fyrirtækið hefur brugðist við niðurstöðunum með því að styrkja þá sem á þurfa að halda til gleraugnakaupa og Rúnar bendir á að þeir eigi auk þess einnig rétt á styrk frá stéttafélaginu. Hann segir að til standi að innleiða reglulegar sjónmælingar há Allrahanda í kjölfarið.
Þegar sjón daprast með aldrinum getur það gerst í svo smáum skrefum að fólk áttar sig ekki á því fyrr en eftir langan tíma. Vilborg Magnúsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Sjóvá, bendir á að þegar um atvinnubílstjóra ræðir, sem eru á vegunum stóran hluta sólarhringsins allt árið um kring, þá megi sjá í hendi sér hve miklu máli skipti að sjónin sé í lagi.
„Í heildina litið kom þetta vel út [hjá Allrahanda] en þarna voru þó um 10 manns sem reyndust þurfa gleraugu, eða ný gleraugu með breyttum styrk til þess að sjónin væri í lagi,“ segir Vilborg.
Samvinnan við Allrahanda og Augað var tilraunaverkefni sem gaf góða raun að sögn Vilborgar og nú er ætlunin að halda áfram með og hefja samvinnu um sjónmælingar við önnur fyrirtæki í atvinnuakstri.
„Svo vonumst við auðvitað til þess að þetta smitist út til ökumanna almennt, þannig að fólk verði vakandi fyrir sjóninni því athyglinni hefur ekki mikið verið beint að þessu en við teljum þetta mikilvægt innlegg í umræðuna um umferðaröryggi.“
mbl.is hafði samband við Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa og sagði hann að þess þekkist dæmi þar sem sjóndepurð er þáttur í umferðarslysum. Ekki eru hins vegar til neinar beinharðar tölur um slíkt orsakasamhengi þar sem sjón hefur ekki verið rannsökuð sem slík.
Ágúst segir að niðurstöður sjónmælingarinnar hjá Allrahanda séu áhugaverðar. „Ég myndi segja að þetta sé eitthvað sem við munum leggja meiri áherslu á að skoða í framtíðinni.“