Samtök Atvinnulífsins kynntu í dag áherslur sínar vegna komandi kjaraviðræðna. Þar kom fram að verðbólga væri helsti dragbítur á kaupmáttaraukningu íslenskra heimila og að betri lífskjör yrðu einungis sótt með því að lækka hana og vexti ásamt fjölgun starfa. Líta þyrfti til þróunar á Norðurlöndum þar sem launahækkanir hefðu verið mun hófsamari en hér á landi en jafnframt hefði náðst að auka kaupmátt verulega.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdarstjóri SA, fór yfir stöðuna þar sem fram koma að skuldir heimilanna næmu nú 2.000 milljörðum og því legði hvert prósentustig í verðbólgu 20 milljarða króna byrði á heimilin í formi vaxta og verðbóta. Heildarlaun landsmanna næmu ríflega 800 milljörðum króna og því næmi 8 milljarða króna launhækkun 1% en eftir stæðu 5 milljarðar eftir greiðslu tekjuskatts. Því væri ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu u.þ.b. fjórfalt meiri en af 1% launahækkun og því væri í raun þörf á nýrri þjóðarsátt um bætt lífskjör.
Lagt er til að einungis verði samið til 12 mánaða en að þeim tíma liðnum ætti að vera komin skýrari mynd á stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og skýr áform um afnám gjaldeyrishafta.