90% lán ÍLS ekki sökudólgurinn

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Golli

Fyrrverandi stjórnendur Íbúðalánasjóðs segja að það fáist ekki staðist að 90% lán sjóðsins hafi verið „grunnur ógæfunnar“ eins og það er orðað í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn. Þeir segja jafnframt rannsóknarnefndina ekki gera greinarmun á pólitískum ákvörðunum og framkvæmd sjóðsins.

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs var boðaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag, ásamt Gunnari S. Björnssyni og Hákoni Hákonarsyni sem báðir eru fyrrverandi formenn og varaformenn stjórnar ÍLS.

90% lán aðeins 40 talsins árið 2005

Þeir mótmæltu þeirri niðurstöðu skýrslunnar um afleiðingar hækkunar lánshlutfalls sjóðsins í 90%. Guðmundur benti á að árið 2005 hafi aðeins 40 lán á höfuðborgarsvæðinu náð því að vera 90%. „Ég spyr mig því hvernig veiting 90% lána hefði átt að geta náð því að setja hér markaðinn á hausinn,“ sagði Guðmundur og bætti því við að hann teldi neyslulán bankanna, til kaupa á bílum og utanlandsferðum, hafa vegið þar þyngra.

Gunnar tók heilshugar undir með Guðmundi og fullyrti að 90% lán Íbúðalánasjóðs hafi nánast engin áhrif haft á markaðinn. „Við náðum nánast aldrei upp í það að geta lánað 90%. Þetta var nánast ekki til af hálfu íbúðalánasjóðs.“

Ákvörðunin var stjórnvalda, ekki sjóðsins

Á fundinum kom það ítrekað fram í máli fyrrverandi stjórnarmanna ÍLS að þeir telja rannsóknarnefndina ekki gera nægan greinarmun í skýrslunni á ábyrgð stjórnvalda annars vegar og framkvæmd Íbúðalánasjóðs hins vegar.

Guðmundur benti sem dæmi á að ákvörðunin um að hækka lánshlutfallið í 90% hafi verið pólitísk, en ekki á valdi stjórnar eða stjórnenda sjóðsins. Húnt hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á þinginu og stjórnendum sjóðsins því ekki stætt á öðru en að framkvæma það.

„Í skýrslunni er raunverulega sagt að þetta hafi verið sjálfbirgingsleg ákvörðun stjórnenda Íbúðalánasjóðs, að láta ekki setja sig undir í samkeppni við bankanna og þetta hafi verið óraunhæft viðhorf okkar,“ sagði Guðmundur og andmælti harðlega.

„Hömlulaus innkoma bankanna“ á markaðinn

Í  greinargerð sem Guðmundur lagði fyrir þingnefndina rifjar hann upp að hækkun á lánshlutfalli í 90% hafi átt að innleiðast í áföngum á fjórum árum hjá Íbúðalánasjóði og sá fyrirvari hafðu að ef hún hefði neikvæð efnahagsleg áhrif yrði innleiðingaferlið endurskoðað.

Það hafi hins vegar haft lítinn tilgang eftir „hömlulausa innkomu bankanna“ á markaðinn. Útlán bankanna hafi numið 30 milljörðum á mánuði, marga mánuði í röð. 

„Nefndin dregur enga ályktun af áhrifum þeirra útlána en heldur sig við fyrri kenningar um að 90% lánsheimildir ÍLS hafi sett hér öll efnahagsmál úr böndunum. Það er ekki aðeins vönd heldur hreinlega fráleit fullyrðing.“

Guðmundur sagði að stjórn og stjórnendur ÍLS hafi fyrst og fremst verið að framkvæma vilja stjórnvalda og Alþingis og sinna því hlutverki sem sjóðnum var ætlað í þeim erfiðleikum sem yfir hann gengu á árunum 2004-2005.

„Okkur finnst lítill greinarmunur gerður á því að hinum stóru pólitísku ákvörðunum, sem Alþingi samþykkti, og svo því sem okkur var gert að framkvæma.“

Guðmundur Bjarnason fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Guðmundur Bjarnason fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kom út í júlí.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kom út í júlí. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka