Hæstiréttur hefur fallist á kröfu íslenska ríkisins, Financial Services Compensation Scheme Limited, fjölda sveitastjórna og fleiri kröfuhafa í þrotabú Landsbanans um á hvaða gengi skyldi reikna kröfur þeirra í búið. Snéri Hæstiréttur þar við úrskurði héraðsdóms sem hafði fallist á ákvörðun slitastjórnar Landsbankans í málinu.
Um var að ræða útreikninga á virði tveggja greiðslna, sem inntar voru af hendi í erlendum gjaldmiðlum 2. desember 2011 og 24. maí 2012, upp í forgangskröfur til íslenskrar krónu eftir skráðu sölugengi viðkomandi gjaldmiðils hjá Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009, en þann dag var Landsbankinn tekinn til slita.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar er þrotabúi Landsbankans gert að umreikna greiðslur til kröfuhafanna í erlendum gjaldmiðlum 2. desember 2011 og 24. maí 2012 í íslenskar krónur, að miða við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á íslenskri krónu gagnvart hlutaðeigandi erlendum gjaldmiðlum á þeim degi þegar greiðslurnar voru inntar af hendi.