Hreinn hatursáróður Egils

Egill Einarsson mætti í réttarsal í dag.
Egill Einarsson mætti í réttarsal í dag. Morgunblaðið/Rósa Braga

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Sunnu Ben Guðrúnardóttur, segir að Egill Einarsson sé upphafsmaður að tiltekinni orðræðu, hann hafi gefið út bækur með henni og hvatt til notkunar orðræðunnar. Um sé að ræða hatursfulla og niðrandi orðræðu og í raun sé hún hreinn hatursáróður.

Þetta sagði Sigríður þegar mál Egils á hendur Sunnu Ben var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Egill höfðaði málið vegna ummæla Sunnu á samfélagsvefnum Facebook. 

Egill höfðaði mál vegna ummæla sem látin voru falla á Facebook. Gerð er krafa um 500 þúsund krónur í miskabætur til handa Agli en verði dæmt Agli í vil munu bæturnar renna til góðgerðarmála.

Ummælin skrifaði Sunna Ben á spjallþráð á samfélagsvefnum Facebook. Tilefnið var forsíðuviðtal sem birtist við Egil í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, þann 22. nóvember 2012. Í kjölfar viðtalsins var stofnuð mótmælasíða á Facebook þar sem birtingu viðtalsins var mótmælt og þess krafist að ritstjóri Monitor gæfi út afsökunarbeiðni.

Sunna Ben tók þátt í umræðunni á Facebook og sagði meðal annars að mótmælasíðan væri ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku og að það sé gagnrýnivert að nauðgarar prýði forsíðu tímarita.

Sigríður Rut krafðist þess að héraðsdómur sýkni Sunnu. Hún sagði meðal annars að hatursáróður Egils í gegnum árin hafi rýmkað mörk tjáningarfrelsis gegn honum sjálfum og því megi ganga mjög langt í að gagnrýna hann. Alla vega jafn langt og hann sjálfur hefur farið. Hún bað dómara málsins um að bera saman það sem komið hafi frá Agli og hvað Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skilgreint sem hatursáróður.

Hún las nokkur ummæli Egils sem hún sagði niðrandi um blökkumenn og konur. Meðal annars ummæli þess efnis að öskra eigi á konur í hvert skipti sem þær opna munninn, þá séu þær kallaðar ílát, drasl og verri hluti sem hún vildi ekki hafa eftir. Þá hafi Egill hvatt til nauðgunar í ummælum sínum.

Í þessu máli sé þá til staðar tenging milli háttsemi Egils sjálfs og orðræðu hans um skort á kynfrelsi kvenna og þeirra ummæla sem Sunna Ben skrifaði. Sunna Ben sé bæði femínisti og kona og því í þeim hópi sem Egill hefur ráðist gegn með orðræðu sinni. 

Sigríður sagði síðar að Gillz væri tilbúið skrípi og að Egill hafi sjálfur gert eigin mannorði meira tjón en Sunna hefði getað gert. Þá hafi Egill sjálfur fjallað ítrekað um nauðgunarmálið, alveg frá því hann var fyrst kærður fyrir nauðgun. Sunna sé því ekki upphafsmaður að þeirri umræðu heldur megi færa rök fyrir því að Egill sé það. Umfjöllun Sunnu hafi því almenna skírskotun til umræðu um málið. Hún tók málið ekki upp hjá sjálfri sér heldur svaraði athugasemd á Facebook. Í raun hafi hún aðeins endursagt það sem áður hafði komið fram. Hún beri enga sönnunarbyrði um það hvort Egill hafi nauðgað ungu konunni eða ekki.

Þá sagði hún að Egill hefði afsalað sér öllu friðhelgi um nauðgunarkæruna enda hafi hann ítrekað fjallað um hana á opinberum vettvangi og meira að segja sagst ætla að leggja gögnin á borðið og í dóm lesenda. Sunnu sé heimilt að sjokkera, trufla eða móðga Egil, alla vega á jafn sjokkerandi máta og hann hefur sjálfur valið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka