„Ummælin ósönn og smekklaus“

Egill Einarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Egill Einarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Rósa Braga

„Ummælin eru ósönn og smekklaus og til þess fallin að sverta æru stefnanda [Egils Einarssonar]. Hagsmunir hans um að fá þau dæmd dauð og ómerk eru mjög miklir.“ Þetta sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils, fyrir dómi í dag. Egill höfðaði mál vegna ummæla sem látin voru falla á Facebook. Gerð er krafa um 500 þúsund krónur í miskabætur til handa Agli en verði dæmt Agli í vil munu bæturnar renna til góðgerðarmála.

Ummælin skrifaði Sunna Ben Guðrúnardóttir á spjallþráð á samfélagsvefnum Facebook. Tilefnið var forsíðuviðtal sem birtist við Egil í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, þann 22. nóvember 2012. Í kjölfar þess var stofnuð mótmælasíða á Facebook þar sem birtingu viðtalsins var mótmælt og þess krafist að ritstjóri Monitor gæfi út afsökunarbeiðni.

Sunna Ben tók þátt í umræðunni á Facebook og sagði meðal annars að mótmælasíðan væri ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku og að það sé gagnrýnivert að nauðgarar prýði forsíðu tímarita. 

„Það er hafið yfir allan vafa að vegið er að æru stefnanda [Egils] með alvarlegum hætti,“ sagði Vilhjálmur. „Hún fullyrðir að hann hafi nauðgað unglingsstúlku en hvort tveggja er rangt. Hann hefur engum nauðgað og meintur brotaþoli var fullveðja einstaklingur en ekki unglingur.“

Vilhjálmur sagði einnig að Sunna hefði ekki gert neinn fyrirvara við orð sín. Málið hefði aldrei verið höfðað hefði hún talað um meintan nauðgara eða menn sem kærður var fyrir kynferðisbrot. Hún hafi fullyrt að Egill sé nauðgari og það þrátt fyrir vitneskju um að búið væri að fella mál á hendur Agli niður. Þetta var ekki liður í málefnalegri umræðu. Þetta var sleggjudómur stefndu.“ Hann sagði að auðvelt sé að sanna að ummælin séu röng, um sé að ræða aðdróttun um refsiverða háttsemi og því beri dóminum að ómerkja þau og dæma Sunnu til greiðslu miskabóta.

Sunnu var boðið að ljúka málinu með sátt en Vilhjálmur sagði að engin afsökunarbeiðni hefði borist. Lögmaður hennar hafi þó upplýst um að færslan hafi verið fjarlægð. „Sú ákvörðun að fjarlægja ummælin breytir engu en það má eftir atvikum virða það henni til refsilækkunar. En með því að fjarlægja ummælin var hún ekki að viðurkenna eða bæta fyrir brot sitt. [...] Réttarstaðan í þessu máli er algjörlega skýr. Egill Einarsson er með hreint sakarvottorð, kærur vegna kynferðisbrota voru felldar niður. Ummæli stefndu þess efnis að hann sé nauðgari sem nauðgar unglingsstúlku og að hann sé nauðgari sem prýði forsíðu eru ærumeiðandi aðdróttun.“

Eins og í öðru meiðyrðamáli Egils sem fjallað var um á mbl.is fór Vilhjálmur yfir færslur sem Egill skrifaði á netið. Hann tók sérstaklega fyrir eina færslu og sagði Egil hafa viðurkennt að fara yfir strikið. „Með þessum ummælum sínum fór hann yfir strikið og hefur gerst sekur um ærumeiðandi aðdróttun í garð einhverra þeirra [kvenna sem hann nefndi í færslunni] en það leitaði enginn réttar síns. Enda var Agli strax ljóst að hann hefði gert mistök, hann baðst afsökunar og fjarlægði færsluna af netinu.“

Hann sagði Egil vita að hann þurfi að þola hvassari umfjöllun um sig og persónu sína en margir aðrir. Það breyti því hins vegar ekki að hann eigi rétt til æruverndar. „Það má uppnefna hann og kalla ýmsum ljótum nöfnum en ekki ásaka hann um refsiverða háttsemi sem ekki á við rök að styðjast.“

Áfram verður fjallað um málið á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka