Segir dæturnar allar í skóla

Umfjöllun Nýs lífs um mál Hjördísar.
Umfjöllun Nýs lífs um mál Hjördísar.

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir, sem sótti dætur sínar til Danmerkur, segir að þær séu allar þrjár í skóla og ánægðar í öruggu umhverfi. Tilefni fréttatilkynningar frá Hjördísi er umfjöllun um mál hennar og dætranna í hádegisfréttum RÚV.

„Bæði kennarar og nemendur hafa tekið þeim opnum örmum. Þær eru ánægðar með að systkinahópurinn hefur sameinast á nýjan leik, en réttur þeirra og bróður þeirra til að fá að alast upp saman hefur verið fótum troðinn undanfarin ár.“

Fram hefur komið í fjölmiðlum að faðir stúlknanna hafi fengið fullt forræði yfir þeim samkvæmt niðurstöðu dóms í Danmörku. „Sá dómur byggist meðal annars á því að faðirinn hafi þurft aðstoð íslenskra stjórnvalda til að fá umgengni við dæturnar,“ segir Hjördís.

Hún bendir á að nú liggi hins vegar fyrir viðurkenning innanríkisráðuneytisins á ólögmæti þeirra aðgerða íslenskra stjórnvalda og verði því að skoða dóminn í því ljósi. Æðsti dómstóll Danmerkur hefði nýverið vísað málinu frá.

„Ég kvíði því ekki“

„Þegar stjórnvöld gripu til þessara ólöglegu aðgerða í fyrra var réttur minn til að bera málið fyrir dómstóla virtur að vettugi og gafst mér þá ekki færi á að leggja fram ný sönnunargögn í málinu. Til samræmis við skýr fyrirmæli laga verða stelpurnar ekki afhentar úr landi nema fyrir atbeina íslenskra dómstóla. Þannig þyrfti faðir að fara í nýtt brottnámsmál. Í slíku máli fengi ég tækifæri á því að hljóta áheyrn fyrir íslenskum dómstólum. Ég kvíði því ekki, enda fengi ég þar að leggja fram gögn í málinu og með þeim hætti að tryggja hagsmuni barna minna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert