Ferðamaðurinn talinn af

Nathan Foley-Mendelssohn.
Nathan Foley-Mendelssohn.

Bandaríski ferðamaðurinn Nathan Foley-Mendelssohn, sem ætlaði að ganga Laugaveginn úr Landmannalaugum að Skógum undir Eyjafjöllum, er talinn af, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli.

Sveinn Kr. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að ekkert hafi spurst til hans síðan 10. september sl., en þá lagði hann einn upp í Laugavegargönguna frá Landmannalaugum.

Frá Íslandi ætlaði Foley-Mendelssohn til Barcelona. Þegar hann skilaði sér ekki þangað höfðu aðstandendur samband við lögreglu hér á landi. Það var á föstudag og þá strax hófst undirbúningur leitar sem stóð alla helgina.

Um 180 sjálfboðaliðar björgunarsveita tóku þátt í leitinni um helgina. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir leitarsvæðið í gær og á laugardag þyrla sem ættingjar mannsins leigðu. Korta- og símanotkun hefur verið athuguð sem og gögn í fartölvu sem var í bíl sem hann leigði og skildi eftir á Hellu, en þaðan tók hann rútuna í Landmannalaugar. Sú athugun skilaði hins vegar engu.

Sveinn segir að þrátt fyrir að maðurinn sé talinn af verði áfram leitað eftir honum. Heilbrigð skynsemi segi hins vegar að nánast engar líkur eru á því að hann sé enn á lífi. Foley-Mendelssohn hafi verið saknað í 20 daga og hann hafi verið með vistir til þriggja daga auk þess sem slæmt veður hafi verið á þessum slóðum, rigning og kuldi. Þrátt fyrir að formleg leit hafi ekki hafist fyrr en um helgina hafa gangnamenn verið þarna á ferðinni undanfarið og enginn orðið mannsins var frá því hann fór frá skálanum í Landmannalaugum þann 10. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert