Páll forstjóri Landspítalans

Páll Matthíasson.
Páll Matthíasson. mbl.is/Golli

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur sett Pál Matthíasson í embætti forstjóra Landspítala. Páll hefur starfað á Landspítala síðastliðin sjö ár og frá árinu 2009 sem framkvæmdastjóri geðsviðs sjúkrahússins með setu í framkvæmdastjórn spítalans og einn af staðgenglum forstjóra.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Í tilkynningunni er haft eftir Kristjáni Þór að það sé afar mikils virði að Páll sé reiðubúinn að taka að sér þetta vandasama verkefni. „Páll hefur verið afar farsæll í starfi sem framkvæmdastjóri geðsviðs, honum er lagið að vinna með fólki og virkja það til samstarfs, jafnt í daglegum störfum og þegar takast þarf á við stór og vandasöm viðfangsefni. Ég ber fyllsta traust til Páls og er sannfærður um að hann verði góður stjórnandi sjúkrahússins.“

Haft er eftir Páli í tilkynningunni að reynsla sín síðustu ár í framkvæmdastjórn spítalans á erfiðum umrótartímum sem og í klínísku starfi á spítalanum verði honum mikilvæg sem forstjóri spítalans: „Það er ljóst að framundan er áframhaldandi barátta fyrir hagsmunum skjólstæðinga spítalans og uppbygging hans sem góðs vinnustaðar sem laðar að og heldur hæfu starfsfólki. Ég lít á þetta sem samstarfsverkefni okkar sem störfum á spítalanum og stjórnvalda. Leiðarljós Landspítalans eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun og í engum þessara þátta má gefa eftir á flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu.“

Páll Matthíasson fæddist í Reykjavík árið 1966. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands með ágætiseinkunn árið 1994 og vann kandídatsár sitt á Landspítalanum. Páll var deildarlæknir á lyflækningasviði og geðsviði Landspítala og starfaði einnig í héraði.

Frá 1997-2007 starfaði Páll í Lundúnum, fyrst við framhaldsnám í geðlækningum og síðar sem sérfræðingur og yfirlæknir á stofnunum innan opinbera heilbrigðiskerfisins og hins einkarekna. Páll var sérfræðingur á South London & Maudsley NHS Trust, yfirlæknir á Oxleas NHS Trust og yfirlæknir  á Huntercombe Roehampton Hospital. Páll vann að uppbyggingu nýrrar spítalaþjónustu og breytingastjórnun því tengdri og hefur sérstaklega beint sjónum að áhrifaþáttum starfsánægju.

Árið 2006 lauk Páll doktorsprófi frá Geðfræðastofnun Lundúnaháskóla. Hann er klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Frá árinu 2007 hefur Páll starfað á Landspítala, fyrst sem yfirlæknir og frá 1. maí 2009, ráðinn til 5 ára, sem framkvæmdastjóri geðsviðs með setu í framkvæmdastjórn spítalans og einn af staðgenglum forstjóra. Páll er kvæntur Ólöfu Björnsdóttur myndlistarmanni og eiga þau tvö börn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert