Innheimta gjald fyrir legu á sjúkrahúsi

Landspítalinn á að innheimta 200 milljónir á næsta ári með …
Landspítalinn á að innheimta 200 milljónir á næsta ári með sérstöku legugjaldi á sjúklinga. mbl.is/Golli

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að sjúkrahús hefji innheimtu á gjaldi á sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús. Lagt er til í frumvarpinu að gjaldið verði 1.200 krónur fyrir hvern legudag. Á þetta að skila Landspítalanum 200 milljónum á næsta ári.

Nefnd undir forystu Péturs H. Blöndal alþingismanns er að vinna að endurskoðun og samræmingu á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt frumvarpinu á Landspítalinn að afla sértekna upp á 199,5 milljónir með innheimtu gjalds á hvern legudag. Sjúkrahúsið á Akureyri á að sömuleiðis að innheimta þetta gjald sem á að skila 22,1 milljón. Samtals er gert ráð fyrir að sértekjur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana hækki um 400 milljónir á næsta ári.

Hefja undirbúning að byggingu sjúkrahótels

Landspítalinn fær samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 39.776 milljónir á næsta ári. Það er aukning um 3,6% frá fjárlögum þessa árs. 600 milljónir vegna tímabundins framlags til tækjakaupa fellur niður. Í greinargerð með frumvarpinu segir að unnið sé að því að endurmeta þörf Landspítalans til tækjakaupa og vonast sé eftir að þeirri vinnu ljúki á haustdögum.

Gert er ráð fyrir fjárveitingu í frumvarpinu til að ljúka hönnun á sjúkrahóteli sem reist verður á lóð Landspítalans. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist um leið og hönnun sé lokið, en áætlaður byggingakostnaður er 1,6 milljarðar.

Áformað er að hefja að nýju starfsemi á Vífilsstöðum í þeim tilgangi að létta álagi af lyflæknisdeildum Landspítala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka