Skráningargjöld í háskóla hækka

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skráningargjöld í háskóla hækki úr 60 þúsund í 75 þúsund krónur, eða sem nemur 200 milljónum á næsta ári. Frumvarpið gerir ráð fyrir að dregið verði úr kennslu og rannsóknum á háskólastigi.

Þetta þýðir að skráningargjöld í opinberu háskólanna tæplega tvöfaldast á nokkrum árum, því þau voru hækkuð úr 45 þúsund í 60 þúsund skólaárið 2012-2013 eftir að hafa verið óbreytt í tæpan áratug.

Frumvarpið gerir ráð fyrir talsverðu aðhaldi í útgjöldum til menntamála, en gert er ráð fyrir að útgjöld lækki um 782 milljónir eða um 1,1%.

„Á háskólastigi er gert ráð fyrir að það dragi úr beinum framlögum til kennslu og rannsókna í háskólum, auk innheimtu ríkistekna. Í framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að dregið verði úr tímabundum framlögum sem ætlað er til þess að greiða fyrir auknum aðgangi fólks að framhaldsskólum og til þróunar fjölbreyttra námsframboðs,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Engin fjárveiting í Hús íslenskra fræða

Samkvæmt frumvarpinu verða framlög til fjárfestingaráætlunar skorin niður um tæplega 2,8 milljarða vegna verkefna í menntakerfinu. Helstu framlög í áætluninni sem falla niður eru Hús íslenskra fræða og verkmenntahús Fjölbrautaskóla Suðurlands.  Framlög til rannsóknarsjóða verða lækkuð og sömuleiðis framlög til Kvikmyndasjóðs og minni sjóða á sviði menningar og lista.

Þá fellur í burtu 400 milljón króna framlag til uppsetningar á sýningu fyrir Náttúruminjasafns.

Framlög til Háskóla Íslands lækka um 320 milljónir að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Framlög til Háskólans Akureyri lækka um 22,7 milljónir. Framlög til Landbúnaðarháskóla Íslands lækka um 24 milljónir og til Hólaskóla um 35,8 milljónir. Hlutfallslega mest er lækkunin til Háskólans á Bifröst eða um 20%, en það þýðir lækkun um 83,4 milljónir. Hafa þarf í huga að skólinn fékk í ár 40 milljónir aukalega til að mæta rekstrarerfiðleikum. Þá lækka framlög til Háskólans í Reykjavík um 43 milljónir.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert