Verjandi Barkar Birgissonar, í máli ákæruvaldsins gegn þeim Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki vegna andláts refsifanga á Litla-Hrauni, sagði við fyrirtöku í morgun að rof á milta sem á að hafa leitt til dauða fangans kynni að hafa gerst við endurlífgunaraðgerðir. Það sé enda mjög algengt.
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í morgun en Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa í sameiningu veist með ofbeldi á fanga á Litla-Hrauni og veitt honum högg á kvið með þeim afleiðingum að rof kom á milta og á bláæð frá miltanu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völdum innvortis blæðinga.
Fórnarlambið lést í klefa sínum 17. maí í fyrra. Frá upphafi rannsóknar voru Annþór og Börkur grunaðir, en upptaka úr öryggismyndavél fangelsisins sýndi að þeir fóru inn í klefa hins látna skömmu áður en hann kenndi sér meins og lést í kjölfarið. Þeir neita báðir sök.
Annþór og Börkur mættu báðir fyrir héraðsdóm í morgun en þar var tekist á um ýmis gögn í málinu og þá hvort fá eigi erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og yfir skýrslu tveggja prófessora í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.
Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, sagði nauðsynlegt að fá yfirmat erlendra sérfræðinga á mati Þóru Steffensen réttarmeinafræðings en hún var áður dómkvödd til að fara yfir þau gögn sem urðu til við krufningu líksins auk annarra þátta sem varða áverka þá er leiddu til dauða mannsins. Hólmgeir sagði það nægjanlega ástæðu að niðurstaða krufningarskýrslu og réttarmeinafræðings sé frábrugðið. Það eitt sé nóg til að rökstyðja þá kröfu að fleiri þurfi til að fara yfir málið.
Þá benti hann á að engir formlegir matsfundir hefðu verið haldnir auk þess sem óeðlilegt sé að réttarmeinafræðingur hafi aðgang að myndbandsupptökum í málinu. Hann sagði að matsmaður hefði farið langt út fyrir efni sitt í málinu.
Ennfremur rifjaði Hólmgeir upp mál þar sem Þóra framkvæmdi krufningu á líki barns og skrifaði mjög afdráttarlausa krufningarskýrslu en hún ásamt umsögnum læknaráðs hafi legið til grundvallar sektardómi í málinu. Nú hafi hins vegar verið óskað eftir endurupptöku á málinu og nýtt mat fengið frá breskum sérfræðingi sem sé mjög afdráttarlaus um það að niðurstaða Þóru standist ekki. Það sé mikilvægt að þessi saga endurtaki sig ekki.
Hólmgeir lýsti einnig furðu á því að saksóknari leggist gegn því að fleiri sérfræðingar komi að málinu. Það sé fyrirsláttur að bera fyrir sig tafir enda gerðist téður atburður í maí í fyrra og ákærðu hafi verið í tveggja manna einangrun síðan. Þá hafi tekið sjö mánuði að fá mat Þóru.
Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar, sagði það vekja athygli sína í matsgerð Þóru að þar komi ekkert fram um að matsfundur hafi verið haldinn, en til að mat haldi formi þurfi að vera haldinn slíkur fundur.
Þá fór hann yfir nokkrar spurningar sem svarað var í matsgerðinni, meðal annars hvers konar áverki valdi því að milta springi. Þar sé meðal annars að finna í svarinu að þrýstingsáverki geti valdið því. Sagði Sveinn það alþekkt að þegar endurlífgunartilraunir eiga sér stað geti milta farið í sundur og að refsifanginn hafi getað látist við það.
Hann sagði þetta mikið athugunarefni enda hafi fyrst fangaverðir hafið lífgunartilraunir og síðar sjúkraflutningamenn. Nauðsynlegt sé að fá yfirmat á þessu. Hann sagði mjög algengt að þetta gerist þegar læknir séu að hnoða sjúklinga til lífs.
Einnig sagði Sveinn að finna megi huglæga afstöðu Þóru til málsins í niðurlagi matsins. Þar komi fram að ef einungis sé horft til niðurstöðu krufningar sé ekki hægt að segja til um að látið hafi verið af mannavöldum. Hins vegar verði að skoða málið í samhengi við aðstæður og umhverfi mannsins. Hann velti fyrir sér hvort það væri eingöngu vegna þess að Annþór og Börkur voru þarna í grennd og segir að hún taki afstöðu og einblíni á einn möguleika.
Einnig fóru verjendur fram á að yfirmat á atferlisskýrslu Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar, en þeir rýndu í atferli og samskipti fanga á upptökum úr öryggismyndavélum. Hólmgeir Elías sagði það mat verjenda að þessi skýrsla geti ekki haft vægi í málinu. Útilokað sé að byggja á gagni sem þessu í refsimáli.
En úr því skýrslan hafi verið lögð fram sé að minnsta kosti ástæða til að fá fleiri til að meta niðurstöðu hennar. Þeir sérfræðingar þurfi að vera erlendir því Jón Friðrik hafi verið kennari hér á landi og verið leiðandi í þessum fræðum hér á landi. Það sé því svo gott sem útilokað að finna hlutlausan sérfræðing hér á landi.
Sveinn bætti litlu við það sem Hólmgeir hafði að segja um atferlisskýrsluna en sagði þó að úr því ákveðið hafi verið að hafa gagnið inni sé rétt að það verði yfirmat.
Helgi Magnús Gunnarsson, aðstoðarríkissaksóknari og saksóknari í málinu, mótmælti því að fallist verði á kröfu verjenda um yfirmat. Hann sagði að þessir sérfræðingar eigi eftir að koma fyrir dóminn og svara fyrir mat sitt. Þeir ættu því einnig að geta svarað spurningum verjenda um einstök atriði, eins og hvort alþekkt sé að milta rofni við lífgunartilraunir.
Hann sagði að dæmi Hólmgeirs um niðurstöður réttarmeinafræðingsins í öðru máli hafi akkúrat enga þýðingu í þessu máli. Það sem skipti máli er hvort skilyrði séu til að fallast á yfirmat. Hann sagðist telja málið ágætlega upplýst og að þessir sérfræðingar ættu að geta svarað fyrir og rökstutt matsgerðir sínar. Það myndi tefja málið að ósekju að fallast á yfirmat.
Ennfremur benti Helgi Magnús á að það sé dómari sem hefur lokaorðið en ekki matsmaður. Dómari geti litið framhjá matsgerðum telji hann ástæðu til þess.
Að loknum ræðum tók dómari ágreiningsefnið til úrskurðar.
Einnig var tekist á um gögn sem urðu til við rannsókn málsins. Til dæmis skýrslur sem teknar voru yfir fangavörðum og refsifanga sem í fyrstu hafði réttarstöðu sakbornings en síðar vitnis. Sveinn Guðmundsson velti þessu mikið fyrir sér og sagðist ekki skilja hvað hafi gerst frá 22. maí 2012 þegar maðurinn var yfirheyrður sem sakborningur til 13. júní þegar hann var yfirheyrður sem vitni. „Það hlýtur að vera einhver skýrsla þarna á milli sem verður til þess að það breytist staða hans. Mér finnst þetta mjög sérstakt.“
Hann sagði að fyrir liggi að umræddur maður hafi verið fyrstur inn í klefann til refsifangans sem lést. „Það verða straumhvörf þarna, hann fer úr sakborningi í vitni.“
Helgi Magnús sagði enga skýrslu liggja fyrir heldur aðeins mat.
Þá var rætt um símahlustanir og rýmishlustanir sem stóðu í „fleiri, fleiri vikur,“ að sögn Hólmgeirs Elíasar. Hann sagði það í hæsta máta óeðlilegt að hlustað sé í allan þennan tíma en svo sé það afgreitt með merkingunni „ekkert“. Átti hann þá við að ekkert hefði verið lagt fram úr hlustununum í málinu.
Verjendur fóru fram á að fá aðstöðu til að hlusta á upptökurnar til að ákvarða sjálfir hvort eitthvað sé í þeim sem eigi heima í málinu. Saksóknari féllst á þá beiðni og sagðist geta sett upp aðstöðu fyrir þá til að hlusta á upptökurnar. Sama ætti við um þá Annþór og Börk sem ættu að geta hlustað á þær á Litla-Hrauni. Saksóknari tók þó fram að það sé almennt ekki verið að draga inn í mál persónuleg samtöl sem ekkert eiga skylt við málið.
Sveinn sagði hins vegar að ef ekkert komi fram í upptökunum sé það engu að síður gagn í málinu, enda eigi að það að koma til skoðunar sem leiði til sýknu og sektar. Það sé matskennt hjá þeim sem hlustar hvort eitthvað sé sett niður á blað.