„Þetta bendir til þess að þrátt fyrir veiðar umfram ráðgjöf undanfarin ár sé stofninn ekki ofveiddur,“ segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun vegna fundar ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem lauk í morgun en þar var fjallað um ástand nokkurra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um nýtingu þeirra.
Ennfremur segir að undanfarin ár hafi Alþjóðahafrannsóknaráðið veitt ráðgjöf í samræmi við aflareglu þar sem aflamarkið hafi ákvarðast af niðurstöðum stofnmatslíkans en aflamarkið fyrir árið 2013 var 542 þúsund tonn. Hins vegar hafi verið ákveðið að að styðjast ekki við stofnmatslíkanið í ár en meginástæða þess eru óáreiðanleg aflagögn á grundvelli þess fram til ársins 2006.
Stærð makrílstofnsins verið vanmetin
„Gagnagreining bendir til þess að stofnstærðin hafi verið vanmetin undanfarin ár og að ekki sé verjandi að byggja ráðgjöf áfram á þessum gögnum. Vísitölur um stofnstærð makríls frá fjölþjóðlegum eggjaleiðangri sem farinn var í sumar sýna að stofninn hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Þá gáfu niðurstöður fjölþjóðlegs leiðangurs í júlí/ágúst 2013 vísbendingar um vaxandi stofn og góða nýliðun á undanförnum árum,“ segir sömuleiðis í tilkynningunni.
Þá segir að ráðlagt aflamark fyrir árið 2014 taki mið af þessum upplýsingum og er ákvarðað út frá meðaltali heildarafla undanfarinna þriggja ára sem sé 889.886 tonn. „Sérstakur fundur um stofnmat á makríl verður haldinn á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í febrúar nk. Þar verður rýnt í öll möguleg gögn sem nýst geta í stofnmati og ný líkön prófuð. Bundnar eru vonir við að áreiðanlegra stofnmat fáist með þeirri vinnu sem hægt verði að nota til að veita ráðgjöf um aflamark í framtíðinni. Heildarafli þjóðanna fyrir árið 2013 er áætlaður 895 þúsund tonn. Þar af er afli Íslendinga áætlaður um 123 þús. tonn.“
Búist við síldarstofninn minnki áfram
Hrygningarstofninn í norsk-íslenskri vorgotssíld árið 2014 er hins vegar talinn verða 4,1 milljónir tonna og þar með undir varúðarmörkum sem er 5 milljónir tonna. Reiknað er með að hann fari enn minnkandi og verði rúmlega 3,5 milljónir tonna árið 2015. „Aflamark árið 2013 var 619 þúsund tonn, en Færeyingar hækkuðu sitt aflamark um 70 þúsund tonn og er gert ráð fyrir að heildarafli árið 2013 verði um 692 þúsund tonn. Að teknu tilliti til þessarar hækkunar verður aflamark árið 2014, samkvæmt aflareglu, um 419 þúsund tonn. Hlutdeild Íslendinga í aflanum árið 2014 verður um 60 þúsund tonn (14,51%). Til samanburðar var hlutdeild Íslands 90 þúsund tonn árið 2013.“
Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofn kolmunna talinn vera um 5,5 milljónir tonna á þessu ári sem er nálægt því sem reiknað var með að hann yrði samkvæmt úttekt á síðasta ári. „Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 6,9 milljónir tonna árið 2015 ef afli árið 2014 verður samkvæmt aflareglu. Aflamark fyrir árið 2014 verður 949 þúsund tonn samkvæmt aflareglu. Hlutdeild Íslendinga er um 167 þúsund tonn (17,6%). Til samanburðar var aflamark fyrir árið 2013 um 643 þúsund tonn og hlutdeild Íslendinga 113 þúsund tonn.“