Makrílstofninn ekki ofveiddur

„Þetta bend­ir til þess að þrátt fyr­ir veiðar um­fram ráðgjöf und­an­far­in ár sé stofn­inn ekki of­veidd­ur,“ seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá Haf­rann­sókn­ar­stofn­un vegna fund­ar ráðgjaf­ar­nefnd­ar Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins (ICES) sem lauk í morg­un en þar var fjallað um ástand nokk­urra upp­sjáv­ar­fiski­stofna í Norðaust­ur-Atlants­hafi og til­lög­ur um nýt­ingu þeirra.

Enn­frem­ur seg­ir að und­an­far­in ár hafi Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið veitt ráðgjöf í sam­ræmi við afla­reglu þar sem afla­markið hafi ákv­arðast af niður­stöðum stofn­mats­lík­ans en afla­markið fyr­ir árið 2013 var 542 þúsund tonn. Hins veg­ar hafi verið ákveðið að að styðjast ekki við stofn­mats­líkanið í ár en megin­á­stæða þess eru óáreiðan­leg afla­gögn á grund­velli þess fram til árs­ins 2006.

Stærð mak­ríl­stofns­ins verið van­met­in

„Gagna­grein­ing bend­ir til þess að stofn­stærðin hafi verið van­met­in und­an­far­in ár og að ekki sé verj­andi að byggja ráðgjöf áfram á þess­um gögn­um. Vísi­töl­ur um stofn­stærð mak­ríls frá fjölþjóðleg­um eggja­leiðangri sem far­inn var í sum­ar sýna að stofn­inn hef­ur farið vax­andi á und­an­förn­um árum. Þá gáfu niður­stöður fjölþjóðlegs leiðang­urs í júlí/​ág­úst 2013 vís­bend­ing­ar um vax­andi stofn og góða nýliðun á und­an­förn­um árum,“ seg­ir sömu­leiðis í til­kynn­ing­unni.

Þá seg­ir að ráðlagt afla­mark fyr­ir árið 2014 taki mið af þess­um upp­lýs­ing­um og er ákv­arðað út frá meðaltali heild­arafla und­an­far­inna þriggja ára sem sé 889.886 tonn. „Sér­stak­ur fund­ur um stofn­mat á mak­ríl verður hald­inn á veg­um Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins í fe­brú­ar nk. Þar verður rýnt í öll mögu­leg gögn sem nýst geta í stofn­mati og ný líkön prófuð. Bundn­ar eru von­ir við að áreiðan­legra stofn­mat fá­ist með þeirri vinnu sem hægt verði að nota til að veita ráðgjöf um afla­mark í framtíðinni. Heild­arafli þjóðanna fyr­ir árið 2013 er áætlaður 895 þúsund tonn. Þar af er afli Íslend­inga áætlaður um 123 þús. tonn.“

Bú­ist við síld­ar­stofn­inn minnki áfram

Hrygn­ing­ar­stofn­inn í norsk-ís­lenskri vorgots­s­íld árið 2014 er hins veg­ar tal­inn verða 4,1 millj­ón­ir tonna og þar með und­ir varúðarmörk­um sem er 5 millj­ón­ir tonna. Reiknað er með að hann fari enn minnk­andi og verði rúm­lega 3,5 millj­ón­ir tonna árið 2015. „Afla­mark árið 2013 var 619 þúsund tonn, en Fær­ey­ing­ar hækkuðu sitt afla­mark um 70 þúsund tonn og er gert ráð fyr­ir að heild­arafli árið 2013 verði um 692 þúsund tonn. Að teknu til­liti til þess­ar­ar hækk­un­ar verður afla­mark árið 2014, sam­kvæmt afla­reglu, um 419 þúsund tonn. Hlut­deild Íslend­inga í afl­an­um árið 2014 verður um 60 þúsund tonn (14,51%). Til sam­an­b­urðar var hlut­deild Íslands 90 þúsund tonn árið 2013.“

Sam­kvæmt nýj­asta mati er hrygn­ing­ar­stofn kol­munna tal­inn vera um 5,5 millj­ón­ir tonna á þessu ári sem er ná­lægt því sem reiknað var með að hann yrði sam­kvæmt út­tekt á síðasta ári. „Gert er ráð fyr­ir að hrygn­ing­ar­stofn­inn verði um 6,9 millj­ón­ir tonna árið 2015 ef afli árið 2014 verður sam­kvæmt afla­reglu. Afla­mark fyr­ir árið 2014 verður 949 þúsund tonn sam­kvæmt afla­reglu. Hlut­deild Íslend­inga er um 167 þúsund tonn (17,6%). Til sam­an­b­urðar var afla­mark fyr­ir árið 2013 um 643 þúsund tonn og hlut­deild Íslend­inga 113 þúsund tonn.“

Frétta­til­kynn­ing Haf­rann­sókna­stofn­un­ar

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert