Kæra ekki vegna aflífunar

Grindhvalur skorinn í fjörunni í Rifi á Snæfellsnesi.
Grindhvalur skorinn í fjörunni í Rifi á Snæfellsnesi. mbl.is/Alfons Finnsson

Ekki verður lögð fram kæra til lögreglu af hálfu Matvælastofnunar vegna aflífunar grindhvala eftir að tugir þeirra strönduðu í fjörunum við Rif á Snæfellsnesi og Bug við Ólafsvík í byrjun september.

„Við könnuðum málsatvik og fengum nokkra mynd af því sem þarna gerðist. Þegar búið var að skoða það töldum við að það væri ekki grundvöllur fyrir því að leggja fram kæru á hendur fólks, að lög hefðu ekki verið brotin,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir. Áður hafði verið talið mögulegt að dýrin hefðu ekki verið aflífuð með réttum hætti.

Að sögn hennar ber viðstöddum ekki saman um hvernig dýrin voru aflífuð. Þá segi núgildandi lög um dýravernd ekki til um hvernig standa eigi að aflífun strandaðra hvala en þó eigi að aflífa þá með eins skjótum og sársaukalausum hætti og kostur er.

Lögin falla úr gildi um áramótin og segir Sigurborg að reglurnar verði skýrari í lögunum sem þá taka við. „Í þessu tilviki teljum við að ekki hafi verið um að ræða brot á núgildandi lögum,“ segir Sigurborg.

Til eru verklagsreglur um aðkomu opinberra aðila þegar hvali rekur á land. Þar segir að allmikið sé um að hvali reki á land, lifandi eða dauða. Voru verklagsreglurnar settar saman með það í huga að ljóst væri hver hefði forræði samkvæmt lögum og reglum og einnig til þess að ekki væri gripið til aðgerða í hita leiksins sem orkuðu tvímælis.

Að sögn Sigurborgar er ljóst að verklagsreglunum var ekki fylgt. Hvalina rak á land um kvöldmatarleytið laugardaginn 7. september síðastliðinn, en Matvælastofnun barst ekki tilkynning fyrr en daginn eftir. Sigurborg segir að viðbragðsáætlunin verði endurskoðuð.

Frétt mbl.is: Verklagsreglum ekki fylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert