Alhvít jörð og ófærð í Reykjavík

Vetur konungur mætti í viðhafnarklæðunum til Reykjavíkur í nótt. Jörð var alhvít á sjöunda tímanum í morgun en á bilinu 5 til 15 sentímetra jafnfallinn snjór var á jörðinni. Kyrrðin í morgunsárið var ótrúleg og velti blaðamaður því fyrir sér hvort hann hefði sofið yfir sig fram í desember.

Ökumenn eru beðnir að sýna ýtrustu varkárni í umferðinni, því götur eru mjög hálar og margir enn á sumardekkjum. Snjóruðningstæki eru byrjuð að salta götur borgarinnar og ryðja leiðir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við hálku og ófærð. Þeir sem eru ekki á vetrardekkjum ættu að halda kyrru fyrir og fylgjast með upplýsingum um færð og mokstur gatna. Búast má við miklum töfum og er það reynsla lögreglunnar að helsta ástæðan fyrir því eru vanbúnir bílar á ferð.

Veðurspá næsta sólarhring: Hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en dálítil snjókoma eða slydda sunnan og vestantil. Norðvestan 8-13 og dálítil él sunnan og vestanlands síðdegis. Hægara og úrkomulítið norðaustantil, en norðan 5-10 og él í kvöld. Hiti 0 til 5 stig að deginum, en kringum frostmark fyrir norðan.

Veðurvakt í Reykjavík hefst ekki fyrr en 11. nóvember

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að klukkan fjögur í nótt hafi verið byrjað  að salta götur í Reykjavík og eftir að snjókoma jókst var farið að ryðja. Þá hafi dráttavéladeild borgarinnar farið af stað í morgunsárið að ryðja hjóla- og göngustíga. Viðbragð var hægara en ella vegna þess að reglubundnar vetrarvaktir eru ekki hafnar, en þær hefjast 11. nóvember samkvæmt frétt á síðu Reykjavíkurborgar.

<br/>

Verktakar frá síðasta vetri voru kallaðir út til að sinna mokstri. Nú í vikunni er á dagskrá að ganga frá samningum við  verktaka um vetrarþjónustu gönguleiða í samræmi við útboð. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar á facebooksíðu sinni við að búast megi við töfum á umferð: Það hefur snjóað töluvert í nótt á höfuðborgarsvæðinu og víða hálka og jafnvel þungfært í úthverfum. Mikilvægt er að fara sér hægt í morgunsárið og fara ekki af stað á vanbúnum bílum. Það er fyrirsjáanlegt miðað við fyrri reynslu að miklar tafir verði á umferðinni vegna færðar, hálku og vanbúinna bíla.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert