Yoko Ono heiðursborgari Reykjavíkur

Yoko Ono.
Yoko Ono. AFP

Jón Gnarr borgarstjóri útnefndi listakonuna Yoko Ono sem heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða í dag.

Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í síðustu viku að gera listakonuna að heiðursborgara. Reykjavíkurborg vill með heiðursnafnbótinni þakka Yoko Ono fyrir dýrmætt framlag hennar til þess að vekja athygli á mikilvægi friðar og mannréttinda í heiminum og fyrir að kjósa Reykjavík sem vettvang til þess að breiða út þann boðskap, segir í tilkynningu frá borginni.

Hingað til hafa fjórir einstaklingar verið gerðir heiðursborgarar Reykjavíkurborgar; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010 og Erró árið 2012. Nú bætist heiðursborgarinn Yoko Ono í þennan hóp.

Beint ljósi friðar að Reykjavík

„Með starfi sínu hefur Yoko Ono beint ljósi friðarins að Reykjavík sem við viljum að standi uppljómuð sem borg friðar og mannréttinda. Það er mér því mikil ánægja að Yoko Ono skuli nú vera gerð að heiðursborgara í Reykjavík. Framlag hennar til friðar- og mannréttindamála í heiminum er einstakt. Friðarsúlan hefur borið hróður Reykjavíkur víða auk þess sem viðurkenningin LennonOno Grant for Peace eru nú veitt í Reykjavík,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri.

Yoko Ono nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem tónlistar- og myndlistarmaður sem aðallega hefur unnið með konseptlist. Hún hefur sterk tengsl við Reykjavík í gegnum verkið IMAGINE PEACE TOWER (Friðarsúlan) sem fyrst var kveikt á þann 9. október 2007. Grunnhugmynd verksins er sótt í sameiginlegt lífsstarf Yoko Ono og John Lennon og snýst um útbreiðslu friðarboðskapar í gegnum listir og er verkið tileinkað minningu Lennon.

 Í árvissum heimsóknum sínum til Reykjavíkur þegar kveikt hefur verið á Friðarsúlunni hefur Yoko orðið mikilvæg hvatning fyrir borgaryfirvöld og íslenskan almenning um að beita sér í enn meira mæli að friðar og mannúðarmálum.

Viðurkenningin LennonOno Grant For Peace voru veitt á vettvangi höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York þar til árið 2006 að Yoko Ono sýndi enn frekar hlýhug sinn gagnvart Reykjavík í verki með því að ákveða að veita viðurkenninguna annað hvert ár í Reykjavík. Af þessu tilefni hefur hún boðið hingað heim fulltrúum margra helstu mannúðarsamtaka á heimsvísu auk heimsþekktra talsmanna og listamanna sem vinna að bættum mannréttindum og friði.

Ísland ljómar að hlýju

„Ég þakka ykkur fyrir að gera mig að heiðursborgara í Reykjavík. Það er mér sannur heiður og mikil hvatning í því að halda áfram að vinna að góðum málum.

Við John trúðum á Nutopíu, sem myndi gera okkur öll að heimsborgurum. En í heiminum er eitt land í hjarta okkar sem ljómar af hlýju, sannleika og fegurð. Það er Ísland. Í hvert skipti sem ég kem hingað  er ég minnt á hvað er nauðsynlegt og mikilvægast í lífinu. Kærar þakkir, kærar þakkir, þakkir fyrir að vera þau sem þið eruð,“ sagði Yoko Ono þegar hún tók við viðurkenningunni, segir í tilkynningu borgarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert