Rætt um 3 milljarða til spítalans

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Útlit er fyrir að auknu fé verði farið til Landspítalans á fjárlögum, ef marka má umræðu á Alþingi í dag. „Við erum í grunninn öll innilega sammála um það til hvaða ráða þarf að taka,“ sagði heilbrigðisráðherra. Rætt var um að hætta við 0,8% lækkun tekjuskatts, sem áætlað er að nemi um 5 milljörðum.

Páll Matthíasson forstjóri og María Heimisdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans áttu í morgun fund með velferðarnefnd Alþingis og sögðu þar að spítalinn þyrfti um 3 milljörðum meira á ári til að tryggja rekstur og uppbyggingu spítalans svo vel sé. 

„Við verðum að gera þetta“

Í sérstakri umræðu um stöðu spítalans á Alþingi nú síðdegis virtust margir þingmenn, bæði í stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkum, þeirrar skoðunar að ekki væri annað í boði en að verða við þessu.

Þeirra á meðal var Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sagðist hafa lagt sig fram um að kynna sér stöðuna. „Eiginlega er niðurstaðan sú að við komumst ekki hjá því að bæta í, sennilega að minnsta kosti þremur milljörðum á ári næstu ár. Það er bara þannig,“ sagði Brynjar.

Hann skoraði á þingheim að taka sig til og láta verða af þessu, en það þýðir að breyta þarf fjárlagafrumvarpinu. „Við verðum að hafa kjark og þor til að forgangsraða [...] Það er ekki einu sinni til húsnæði fyrir tækin sem vantar að kaupa [...] Við verðum að gera þetta,“ sagði Brynjar.

Fleiri þingmenn allra flokka tóku undir og virtist almennur samhugur meðal þingmanna.

„Deilum öll sömu skoðun“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir var málshefjandi. Hún benti á að Landspítalinn starfar alls á 16 stöðum í um 100 húsum. „Óhagræðið er augljóst,“ sagði Sigríður Ingibjörg og beindi þeirri spurningu til heilbrigðisráðherra hvort hann muni tryggja fjármuni til tækjakaupa árið 2014, og hvernig hann ætli að mæta þörf fyrir aukna fjármuni til rekstursins. 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði að fullur skilningur væri hjá ríkisstjórninni á þörfinni fyrir uppbyggingu og endurnýjun á Landspítala. Hann hvatti þingheim allan til að standa með Landspítalanum í þeim verkefnum sem framundan væru. 

„Við deilum öll sömu skoðun á því hvað þarf að gera,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Fallið verði frá lækkun tekjuskatts

Eftir á þó að koma í ljós hvaðan þeir 3 milljarðar sem Landspítalinn er sagður þurfa verða fengnir. Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, benti á að fyrirhuguð lækkun á miðþrepi tekjuskatts, úr 25,8% í 25%, komi ekki til með að breyta neinu fyrir fjárhag almennings í landinu.

„En þar eru um 5 milljarðar sem mín vegna mætti nota alla í Landspítalann,“ sagði Björt. Flokksbróðir hennar Guðmundur Steingrímsson sagðist sömuleiðis telja að þetta væri einfaldasta leiðin til að rétta við fjárveitingar til spítalans. 

Þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, tók í sama streng og sagði blasa við hvar hægt væri að sækja peningana sem Landspítalinn þyrfti. „Hættum við þessa tekjuskattslækkun.“ 

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir á Alþingi.
Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka