Ákærð fyrir að svíkja vændiskaupanda

Sautján ára stúlka þarf ekki að svara til saka þrátt fyrir að hún hafi verið ákærð fyrir fjársvik. Stúlkan falbauð líkama sinn en stakk af þegar vændiskaupandinn greiddi henni fyrirfram. Ákærunni var vísað frá þar sem vændiskaup njóta ekki réttarverndar.

Stúlkan var 16 ára þegar atburðurinn átti sér stað. Hún komst í samband við karlmann í gegnum vefsíðuna einkamal.is og bauð honum vændi gegn greiðslu fjármuna.

Hún mælti sér mót við manninn og óskaði eftir því að hann greiddi henni 20 þúsund krónur og að hann myndi rétta henni peningana í gegnum glugga á bíl hans.

Eftir að maðurinn reiddi fjárhæðina fram tók stúlkan til fótanna og hljóp á brott.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur stúlkunni þar sem hún var ákærð fyrir fjársvik.

Í niðurstöðu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur segir að úr ákærunni megi lesa að henni sé gefið að sök að hafa svikið manninn og ástæðan sé sú að hún efndi ekki kynlífsviðskiptin.

„Það er mat dómsins að vændiskaup viðsemjanda ákærðu, sem var barn að aldri, njóti ekki réttarverndar 248. gr. almennra hegningarlaga þótt um vændiskaupin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Vændiskaupandinn gat ekki vænst verndar refsivörslunnar þótt um viðskiptin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Önnur skýring á efni 248. gr. almennra hegningarlaga leiddi til þess að eini möguleiki ákærðu til að losna frá refsiábyrgð hafi verið sá að standa við kynlífsþjónustuna sem um ræðir. Að mati dómsins er sú niðurstaða ótæk.“

Með þeim orðum vísaði dómurinn ákærunni frá.

Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem í dag vísaði málinu frá þar sem kæra saksóknara uppfyllti ekki skilyrði laga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert