Bera niðurstöðuna undir dómstóla

Samtök rétthafa ætla að bera niðurstöðu sýslumannsins í Reykjavík undir dómstóla en sýslumaðurinn synjaði í dag kröfu samtakanna um að lögbann yrði lagt á aðgengi stærstu netþjónustufyrirtækja landsins að vefsvæðunum deildu.net og thepiratebay.sx. 

Rétthafasamtökin sem um ræðir eru SÍK - Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF - Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, FHF - Félag hljómplötuframleiðenda og SMÁÍS - Samtök myndrétthafa á Íslandi.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að ástæða sýslumanns fyrir synjuninni sé aðallega sú að hann telji að rétthafar verði ekki fyrir teljandi spjöllum að bíða niðurstöðu dómsmáls þar sem ofangreind vefsvæði hafa verið opin í langan tíma. 

„Sýslumaður taldi jafnframt að skýra ætti þröngt heimild í höfundalögum til að leggja lögbann á fjarskiptafyrirtæki, þar sem hún væri undantekning frá þeirri reglu að lögbann verður einungis lagt á ólögmæta háttsemi,“ segir í tilkynningunni. Þá sé eitt af fjarskiptafyrirtækjunum ekki talið í aðstöðu til þess að verða við lögbannsbeiðninni af tæknilegum ástæðum.

Samtökin eru ósammála þessari niðurstöðu og segjast ætla að bera hana undir dómstóla.

Telja þau skýrar heimildir í íslenskum lögum að leggja á lögbann á vefsíðurnar og að slíkt lögbann muni ekki skerða atvinnu- eða tjáningarfrelsi með ólögmætum hætti. 

„Það er rétt að umrædd vefsvæði hafa verið starfrækt um hríð en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að rétthafar verða fyrri auknu tjóni fyrir hvern dag sem þau starfa á meðan dómstólameðferð dregst á langinn. Krafa um lögbann var neyðarúrræði rétthafa þar sem allar aðrar leiðir höfðu verið fullreyndar án viðhlítandi árangurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert