Gagnrýndur en var aldrei spurður

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins og fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins og fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Páll Gunnar Pálson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var aldrei kallaður fyrir rannsóknarnefnd um starfsemi Íbúðalánasjóðs, en nefndin gagnrýnir samt FME harðlega og víkur að honum persónulega í skýrslu sinni.

„Ég hef ekki áður átt kost á því að tjá mig um rannsókn rannsóknanefndarinnar á Íbúðalánasjóði. Nefndin hafði aldrei samband við mig. Hún leitaði engra upplýsinga hjá mér á nokkurn hátt, kallaði mig aldrei fyrir sig og bar aldrei nein gögn undir mig,“ sagði Páll Gunnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.

Páll Gunnar hætti sem forstjóri FME um mitt ár 2005, en stofnuninni var falið eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs með lagabreytingu árið 2004.

Tóku upplýsta ákvörðun um áhættustig

Páll Gunnar sagði að það hefðu orðið mjög snöggar og róttækar breytingar á fjármálalífinu á haustmánuðum 2004 og fyrri hluta árs 2005 og þær hefðu komið flestum á óvart.

Alþingi gerði breytingar á húsnæðiskerfinu árið 2004 og Páll Gunnar vakti athygli á því að ítarlega hefði verið farið við áhrif þessara breytinga og m.a. hefði Seðlabankinn varaði við afleiðingum breytinganna. „Það var þess vegna upplýst ákvörðun hjá stjórnvöldum að ráðast í breytingar á þessum tíma og ekki bara það, heldur ákváðu stjórnvöld líka hvaða áhættustig ættu að vera á þeim breytingum, þ.e.a.s. það var t.d. ákveðið að vera ekki með uppgreiðslugjald á nýjum lánum.“

Oftúlka heimildir FME til eftirlits með sjóðnum

Páll Gunnar sagði að rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð gerði í skýrslu sinni ekki grein fyrir heimildum FME til að hafa eftirlit með Íbúðalánasjóði sem væri auðvitað forsenda þess að hægt væri að meta árangur eftirlitsins. Nefndin oftúlkaði algerlega heimildir FME til eftirlitsins. Heimildir FME til eftirlits með Íbúðalánsjóði væru allt aðrar en með bönkunum. Stofnunin hefði ekki haft heimild til að setja sjóðnum reglur og ekki einu sinni leiðbeinandi tilmæli.

Páll Gunnar sagðist hafa fundið að því á sínum tíma þegar löggjöfin var undirbúin að eftirlitsheimildirnar væru óskýrar. Hann benti á að ef eiginfjárhlutfall banka færi niður fyrir lágmark gæti FME gripið til róttækra aðgerða, en ef eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs færi niður fyrir lágmark bæri einungis að upplýsa ráðherra um það.

Páll Gunnar sagði að FME hefði fljótlega áttað sig á að bankarnir hefðu ekki undirbúið sig nægilega vel þegar þeir tóku ákvörðun um að bjóða fasteignalán í samkeppni við Íbúðalánasjóð og hefði brugðist við gagnvart bönkunum.

Blasti ekki við í upphafi að samningarnir væru ólöglegir

Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð er gagnrýnt að Íbúðalánasjóður ákvað í desember 2004 að ávaxta umframfé sitt með lánssamningum við banka og sparisjóði. Sjóðurinn lánaði bönkum og sparisjóðum samtals 95 milljarða króna á tímabilinu desember 2004 til desember 2005. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að þessir samningar hafi verið ólöglegir.

Páll Gunnar hafnaði því algerlega að FME hefði strax í upphafi gefið þegjandi samþykki fyrir þessum samningum. Hann sagði að ef það hefði blasað við strax í upphafi að þessir samningar væru ólöglegir hefði stofnunin látið það strax í ljós, en það hefði ekki blasað við. FME hefði átt í viðræðum við Ríkisábyrgðarsjóð um þessa samninga og bent sjóðnum á að afla sér tiltekinna upplýsinga um málið hjá Íbúðalánasjóði. Nefndin hefði síðan túlkað þessi samskipti með þeim hætti að FME hefði verið að halda eftir upplýsingum, en því færri fjarri. FME hefði bent Ríkisábyrgðarsjóði að kalla eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði vegna þess að FME hefði ekki verið heimilt að afhenta þær beint.

Páll Gunnar sagði að FME hefði einnig óskað eftir upplýsingum frá Íbúðalánsjóði um hvernig sjóðurinn hefði fullvissað sig um lögmæti samninganna.

„Félagsmálaráðuneytið stígur inn í hringinn“

„16. júní 2005 stígur félagsmálaráðuneytið mjög ákveðið inn í hringinn, en þann dag skrifar ráðuneytið FME bréf sem hefur mikla þýðingu út af verkaskiptingu milli félagsmálaráðuneytisins og FME. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi um nokkurt skeið fylgst með bréfaskiptum milli FME og Íbúðalánasjóðs varðandi lánasamninga sjóðsins við banka og sparisjóði. Í bréfinu lýsir ráðuneytið yfir stuðningi sínum við sjónarmið Íbúðalánasjóðs um að umræddir samningar séu þáttur í fjárstýringu sjóðsins og að ekki verði séð að hagstæðari kostir hafi staðið sjóðnum til boða við þáverandi aðstæður,“ sagði Páll Gunnar og bætti við að ekkert væri getið um þetta bréf í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Páll Gunnar sagði að FME hefði svarað þessu bréfi í júní, en það hefði verið síðasta verk sitt sem forstjóri FME áður en hann lét af störfum. „Í þessu bréfi FME var sagt: Nú fyrst að félagsmálaráðuneytið vill bera ábyrgð á þessu þá skuli það bara bera ábyrgð á þessu með því að gefa út reglugerð eða gera annað það sem þarf að gera.“

Félagsmálaráðuneytið setti í framhaldinu reglugerð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að afskipti FME af þessu máli hafi leitt til úrbóta á lánasamningum og tryggt betur veðin sem hafi staðist þrátt fyrir hrunið.

„Ekki hægt að skrifa svo lélegt plagg að ekki sé hægt að læra eitthvað af því“

Páll Gunnar sagðist vera þeirrar skoðunar að rannsóknarnefndin hefði í skýrslu sinni um Íbúðalánasjóð lagt sig fram um að gera störf Fjármálaeftirlitsins tortryggileg. „Við mat á því hvort eftirlitið hafi brugðist horfir nefndin framhjá ákvörðunum löggjafans um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs. Það liggur fyrir að löggjafinn mat áhættur Íbúðalánasjóðs í tvígang á árinu 2004, bæði fyrir og eftir að samkeppnin hófst.“

Páll Gunnar sagði að alvarlegasta ásökun nefndarinnar væri að FME hefði brugðist trausti Alþingis. Það væri fráleit ásökun.

Páll Gunnar var á fundinum spurður hvort hann væri, í ljósi harðar gagnrýni á skýrsluna, þeirrar skoðunar að ekkert væri hægt að læra af henni. Páll Gunnar svaraði: „Það er auðvitað ekki hægt að skrifa svo lélegt plagg að það sé ekki hægt að læra eitthvað af því.“

Páll Gunnar sagðist vera þeirrar skoðunar að þegar horft væri til baka hefðu eftirlitsaðilar mátt vinna betur saman og miðla betur upplýsingum um þá stöðu sem upp kom eftir að bankarnir ákváðu að bjóða upp á fasteignalán í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Komið hefði til greina að mynda sérstakan samráðsvettvang eftirlitsaðila.

Skýrslan og orðbragðið með eindæmum

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kom út í júlí.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kom út í júlí. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka