Íbúar vilja starfsemi Björgunar burt

Sandbingir á athafnasvæði Björgunar. Þolinmæði íbúa Bryggjuhverfis gagnvart starfseminni er …
Sandbingir á athafnasvæði Björgunar. Þolinmæði íbúa Bryggjuhverfis gagnvart starfseminni er á þrotum. mbl.is/Árni Sæberg

Íbúar í Bryggjuhverfinu við Grafarvog í Reykjavík hafa sett á fót undirskriftasöfnun þar sem borgaryfirvöld og fyrirtækið Björgun eru hvött til að semja sem fyrst um flutning fyrirtækisins út úr hverfinu.

Þorsteinn Þorgeirsson, íbúi í Bryggjuhverfi, segir mikilvægt að rödd íbúa hverfisins heyrist í þessu máli en nú þegar hafa 2/3 íbúa hverfisins skrifað undir áskorunina.

„Í raun hefur hverfið verið í ákveðinni gíslingu í meira en áratug og eðlileg þróun þess ekki getað orðið á meðan starfsemi Björgunar er alveg ofan í okkur,“ segir Þorsteinn og bendir á að fyrir vikið hafi ekki byggst upp þjónusta í hverfinu eins og áformað hafi verið við byggingu þess. Þá bendir hann einnig á að starfseminni fylgi mengun og að skipulag umferðar inn og út úr hverfinu sé óklárað.

Þorsteinn segir að þolinmæði íbúa sé á þrotum og orðið löngu tímabært að setja hagsmuni og rétt þeirra í forgang við lausn málsins og færa fyrirtækið á þann stað sem borgaryfirvöld hafa nú boðið því á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert