Skýrslan og orðbragðið með eindæmum

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, ræddi um Íbúðalánasjóð á fundi stjórnskipunar- …
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, ræddi um Íbúðalánasjóð á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, segir að skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóðs sé með eindæmum og ekki síst orðbragðið sem viðhaft er í henni. Hann segir skýrsluhöfunda skorta faglega nálgun og ályktanir í skýrslunni séu ekki alltaf í samræmi við greiningar í skýrslunni.

Þetta sagði Sigurður á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag, en nefndin er að fara yfir skýrsluna og hefur verið að kalla menn á fund nefndarinnar til að spyrja þá um einstök atriði. Sigurður afhenti nefndinni greinargerð um skýrsluna.

Ekki innistæða fyrir stóru orðunum

Sigurður var ríkisendurskoðandi fram til ársins 2008, en Ríkisendurskoðun hafði það hlutverk að sjá um endurskoðun á fjármálum Íbúðalánasjóðs, hafa eftirlit með innri endurskoðun sjóðsins og gera skýrslur um sjóðinn fyrir Alþingi og framkvæmdavaldið. Ríkisendurskoðun fól KPMG að endurskoða reikninga sjóðsins, eins og heimilt er að gera samkvæmt lögum. Eftirlitsstofnanir eru harðlega gagnrýndir í rannsóknarskýrslunni, m.a. Ríkisendurskoðun.

Sigurður gerði kostnað við skýrsluna að umtalsefni á fundinum. Í upphafi var áætlað að skýrslan myndi kosta 70 milljónir og það tæki nefndina sex mánuði að ljúka vinnu við hana. Niðurstaðan varð hins vegar sú að það tók 22 mánuði að ljúka skýrslunni og hún kostnaði 250 milljónir. Sigurður sagði að í staðin fyrir að kosta 5 ársverk hefði skýrslan kostað 16 ársverk. Kostnaðurinn jafngilti rúmlega tveggja ára útgjöldum stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar.

Sigurður sagði að vegna þessa kostnaðar og langa tíma hefði mátt reikna með að skýrslan gæfi faglega og sanna mynd af viðfangsefninu, en því væri ekki að heilsa. Þau stóru orð sem notuð væru niðurstöðukafla skýrslunnar væru ekki undirbyggð í skýrslunni sjálfri.

Sagði að Ríkisendurskoðun hefði sinnt skyldum sínum

Sigurður sagðist alls ekki geta tekið undir að Ríkisendurskoðun hefði verið vanhæf til að fjalla um Íbúðalánasjóð vegna þess að stofnunin hefði komið að innri endurskoðun. Ríkisendurskoðun hefði borið lagaleg skylda til að sinna eftirliti með sjóðnum og stofnun hefði sinnt þessari skyldu sinni.

Sigurður sagði að Ríkisendurskoðun hefði unnið álitsgerðir fyrir Alþingi og félagsmálaráðuneytið um Íbúðalánasjóð og þar væri að finna margvíslegar athugasemdir og ábendingar. Þegar hann horfi til baka sjái hann ekki betur en að Ríkisendurskoðun hefði ágætilega sinnt eftirlitshlutverki sínu. Stofnunin hefði komið ábendingum sínum til Alþingis og stjórnarráðsins. Ríkisendurskoðun hefði hins vegar vissulega ekki séð hrunið fyrir.

Sigurður sagðist vera þeirrar skoðunar að það tap sem Íbúðalánasjóður hefði orðið fyrir væri fyrst og fremst vegna hrunsins. Hann sagðist ekki vilja gera lítið úr tapinu, en hann sagðist hins vegar ekki skilja hvernig rannsóknarnefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að tapið geti mögulega orðið 270 milljarðar króna. Stjórnendur Íbúðalánasjóðs meta tapið á 64 milljarða króna. Sigurður benti á að bankarnir hefðu tapað 50-60% af eignum sínum í hruninu, en tap Íbúðalánasjóðs væri enn sem komið væri innan við 10% af eignum.

Sjóðurinn stendur frammi fyrir miklu vanda í dag

Sigurður vék að því að það væri ekki nóg að horfa á það sem gerðist á síðasta áratug. Íbúðalánasjóður stæði frammi fyrir miklum vanda og Alþingi og stjórnvöld yrðu að taka á honum.

„Það sem er stærsta vandamál Íbúðalánasjóðs í dag eru þessar uppgreiðslur og skipti. Þar er mesta áhættan, peningalega séð. Það vandamál hefur ekki verið leyst og ef þetta heldur áfram hleður þetta bara utan á sig,“ sagði Sigurður. „Stjórnvöld standa frammi fyrir því að það er ekki hægt að láta sjóðinn drabbast niður eins og gert er í dag. Það verður að skýra hvaða hlutverk menn ætla sjóðnum. Sjóðurinn er í dag kominn niður í 20% af útlánum til íbúðakaupa í landinu. Ef að menn ætla að leggja sjóðinn af þá verða þetta verulegir fjármunir sem menn þurfa að leggja sjóðnum til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert