Páll dæmdur fyrir umboðssvik

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag fyrrverandi ritara íhaldshóps Norðurlandaráðs í tólf mánaða fangelsi fyrir umboðssvik. Níu mánuðir refsingarinnar eru bundnir skilorði. Þá er honum gert að greiða Sjálfstæðisflokknum 19.412.025 krónur.

Páll Heimisson er 31 árs og starfaði sem ritari íhaldshóps Norðurlandaráðs frá árinu 2008 og til vormánaða 2011 þegar honum var sagt upp störfum þegar grunur vaknaði um misferli. Páll var með aðstöðu í Valhöll og tvö kreditkort skráð á Sjálfstæðisflokkinn. Með öðru þeirra var honum ætlað að greiða útgjöld tengd störfum íhaldshópsins

Hann var sakfelldur fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda Sjálfstæðisflokkinn þegar hann í alls 321 skipti notaði kreditkort flokksins til úttekta á reiðufé og kaupa á vörum og þjónustu, samtals að fjárhæð 19.412.025 krónur að meðtöldum kostnaði.

Í niðurstöðu dómsins segir að brotaandlagið hafi numið umtalsverðri fjárhæð og Páll hafi engan reka gert að því að bæta fyrir brot sitt. Þá segir að það leysi hann ekki undan refsiábyrgð þótt eftirlit með notkun hans á kreditkortinu hafi ekki verið sem skyldi. 

Frétt mbl.is: Sagðist hafa haft heimild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert