Páll Heimisson sem fyrr í dag var dæmdur fyrir að misnota greiðslukort Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi í tölvupósti til framkvæmdastjóra flokksins að hann hefði brotið lög. Þrátt fyrir það neitaði hann sök þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Páll hlaut tólf mánaða fangelsisdóm, en níu mánuðir þeirra eru bundnir skilorði.
Páll er 31 árs og starfaði sem ritari íhaldshóps Norðurlandaráðs frá árinu 2008 og til vormánaða 2011 en þá var honum sagt upp störfum þar sem grunur vaknaði um misferli. Páll var með greiðslukort skráð á Sjálfstæðisflokkinn en með því átti hann að greiða útgjöld tengd störfum íhaldshópsins.
Þrátt fyrir að kortið hafi verið skráð á Sjálfstæðisflokkinn var það fé íhaldshópsins sem notað var til að greiða greiðslukortareikningana
Páll notaði kortið hins vegar ekki aðeins fyrir íhaldshópinn. Í 321 skipti notaði hann kortið í eigin þágu, meðal annars til úttekta á reiðufé og kaupa á vörum og þjónustu. Alls námu færslur hans19,4 milljónum króna. Páll var í dag dæmdur til að greiða Sjálfstæðisflokknum þá upphæð til baka.
Eins og mbl.is greindi frá í janúar þá tók Páll sjaldnast minna út úr hraðbönkum en 100 þúsund krónur í einu. Hann tók út 100 þúsund krónur úr íslenskum hraðbönkum í 82 skipti, til dæmis 14 sinnum frá 4. maí til 28. júní 2010. Einnig tók hann út 4., 5., 6., 8., 11. og 21. október 2010. Alltaf 100 þúsund krónur.
Jafnframt var töluvert um að háar upphæðir rynnu til Icelandair, væntanlega til kaupa á flugferðum, hæsta einstaka upphæðin til flugfélagsins nam 273 þúsund krónum.
Í dóminum yfir Páli er birt tölvubréf sem Páll sendi Jónmundi Guðmarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, eftir að málið kom upp. Skömmu áður hafði Jónmundur krafið Pál skýringa á gloppum sem voru í fjárreiðum íhaldshópsins.
Í svarbréfi Páls segir: „„a) Ég tek fulla ábyrgð á þeim misgjörðum (fjárdráttur) sem vart hefur orðið við í fjármálum íhaldshópsins. Ég er mjög hryggur yfir því hvernig ég hef brugðist því trúnaðartrausti sem þú og aðrir hafa sýnt mér í störfum mínum undanfarin ár, því miður á ég engar málsbætur í þeim efnum. b) Ég átta mig líka á því að gjörðir mínar eru brotlegar við lög, m.a. refsilög og að ég verði verð ég að sæta ábyrgð á gjörðum mínum. Ennfremur geri ég mér fulla grein fyrir því að þetta mál verði fengið til rannsóknar þess til bærra yfirvalda og niðurstaða þeirrar rannsóknar verði mér mjög þungbær. c) Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að endurgreiða að öllu leyti þær fjárhæðir sem ég hef tekið ófrjálsri hendi.“
Jónmundur kærði Pál til lögreglu nokkrum dögum eftir að honum barst tölvubréfið.
Þrátt fyrir að hafa játað alla sök í bréfinu neitaði hann sök við þingfestingu málsins hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og við aðalmeðferð málsins. Í skýrslutöku fyrir dómara sagði hann málið hafa legið afskaplega þungt á sér og að hann hafi verið í lost þegar hann skrifaði bréfið.
Páll viðurkenndi engu að síður að hafa notað kortið eins og í ákæru greinir. Hann sagðist einfaldlega hafa haft heimild til þess.
Dómurinn féllst ekki á þessa skýringu Páls og vísaði í tölvubréfið. „Er tölvubréf ákærða til Jónmundar Guðmarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, 28. mars 2011, jafnframt til marks um að ákærði hafi ekki staðið í þeirri trú að hann hefði slíka heimild. Samkvæmt framansögðu ber að hafna viðbáru ákærða um að hann hafi haft heimild forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins til að nota kreditkortið til að greiða útgjöld ótengd flokkahópnum.“
Því þótti sannað að Páll notaði kortið í heimildarleysi og sagði dómurinn að með því hafi hann misnotað aðstöðu sína sem handhafi greiðslukortsins til að skuldbinda Sjálfstæðisflokkinn og kom því til leiðar að reikningar vegna heimildarlausrar notkunar kortsins voru greiddir af skrifstofu flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn krafðist þess fyrir dómi að Páll yrði dæmdur til að endurgreiða upphæðina. Á það féllst dómurinn. „Þótt fjármunir sem notaðir voru til greiðslu reikninga vegna óheimilla úttekta ákærða hafi komið úr sjóði flokkahóps íhaldsmanna í Norðurlandaráði liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni bera það tjón sem hlaust af brotum ákærða. Við flutning málsins fyrir dómi vísaði lögmaður bótakrefjanda jafnframt til fundargerðar framkvæmdastjóra íhaldsflokkanna frá 11. desember 2012, þar sem fram kemur að Sjálfstæðisflokkurinn muni krefjast bóta í málinu og endurgreiða flokkahópnum fjármuni sem brot ákærða nemur.“
Þá er Páli gert að greiða rúma milljón í málsvarnarlaun verjanda síns.
Enn er óvíst hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.