ESB setur engin tímamörk

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á …
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í sumar. Skjáskot/EbS Channel

„Við virðum ákvörðun Íslands. Um það þarf ekki að efast. Eins þarf ekki að efast um það að við séum reiðubúin að halda áfram viðræðum hvenær sem er ef Ísland ákveður að byggja á þeim mikla árangri sem við höfum náð.“

Þetta sagði Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel í dag. Þannig hefði 27 viðræðukaflar verið opnaðir og 11 lokað til bráðabirgða. „Ég held að við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins. Við höfum burði til þess. Við erum enn þeirrar skoðunar að það hefði verið Íslendingum í hag og sambandinu.“

Füle sagði ennfremur að hver sem niðurstaða íslenskra stjórnvalda og Íslendinga yrði varðandi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið væri ætlunin að byggja á þeirri reynslu sem umsóknarferlið hefði skilað og styrkja sambandið á milli Íslands og sambandsins. Spurður hvort Evrópusambandið setti einhver tímamörk á það hversu lengi Ísland gæti gert hlé á umsóknarferlinu sagði hann:

„Það er undir Íslandi komið, ríkisstjórn, þingi og þjóð. Við setjum ekki nein ákveðin tímamörk. Ég hef komið því mjög skýrt á framfæri að við virðum ákvörðun þeirra og við virðum þeirra tímaramma.“ Þess má geta að eftir fund með Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, í júní í sumar sagði Füle við blaðamenn að æskilegt væri að það lægi fyrir sem fyrst hvað íslensk stjórnvöld ætluðu að gera varðandi umsóknarferlið.

Blaðamannafundurinn í dag var haldinn í tilefni af útgáfu stöðuskýrslna um þau ríki sem sótt hafa um inngöngu í Evrópusambandið eða sóst eftir því að verða umsóknarríki. Fyrir utan Íslands er þar um að ræða Makedóníu, Bosníu, Albaníu, Serbíu, Kovoso, Svartfjallaland og Tyrkland. Skýrslan um Ísland er afar stutt að þessu sinni eða einungis fimm blaðsíður þar sem farið er í meginatriðum yfir stöðu umsóknarferlisins fram að þingkosningunum hér á landi í vor. Tekið er fram í skýrslunni að þá hafi íslensk stjórnvöld hætt þátttöku í gerð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert