Konur í lögreglunni verða fyrir kynferðislegri áreitni og upplifa neikvætt viðhorf á vinnustað. Vísbendingar eru um að konur hætti störfum hjá lögreglunni vegna vinnumenningar vinnstaðarins.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, MA-nema í kynjafræðum, á vinnumenningu og kynjatengslum innan lögreglunnar, sem hún vann undir leiðsögn dr. Gyðu Margrétar Pétursdóttur, lektors í kynjafræði. „Vandinn er innan lögreglunnar,“ segir Finnborg um niðurstöðurnar.
Embætti ríkislögreglustjóra sóttist eftir samstarfi við kynjafræðideild Háskóla Íslands sl. vor til að kanna af hverju konur væru svo fáar innan raða lögreglunnar.
Könnun var lögð fyrir alla lögreglumenn um vinnumenningu lögreglunnar. Sviðið var breitt og rannsakað var samspil milli vinnu og einkalífs, einelti, kynferðisleg áreitni og viðhorf til kvenna og karla. Einnig var byggt á viðtölum við konur sem höfðu hætt í lögreglunni. Þær voru spurðar af hverju þær höfðu farið í lögregluna, hvers vegna þær hættu störfum og hvað þyrfti að breytast svo þær kæmu aftur í lögregluna.
Það blundaði í öllum þeim konum sem talað var við og höfðu hætt að snúa aftur ef ákveðnar forsendur breyttust, segir Finnborg.
Samantekt á ástæðum brotthvarfs lögreglumanna síðastliðinna ára sýnir að algengasta ástæða þess að karlar óska eftir lausn frá embætti er aldur en konur óska eftir lausn vegna annarra ástæðna.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar fyrir lögreglustjórum og fulltrúum innanríkisráðuneytisins í gær.