Ný ríkisstjórn tók við ráðuneytum sínum í Noregi í dag. Á meðal þeirra sem hófu störf var Reynir Jóhannesson, en hann er pólitískur ráðgjafi samgönguráðherra Noregs, Ketil Solvik Olsen. Reynir er 28 ára stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fæddur og uppalinn á Siglufirði þar sem hann bjó til átta ára aldurs. Þá flutti hann til Noregs og varð bæjarstjórnarfulltrúi fyrir Framfaraflokkinn (FrP) þar í landi við 18 ára aldur. Hann flutti síðan til Íslands til þess að læra stjórnmálafræði við HÍ og hér kynntist hann einnig eiginkonu sinni, Ástu Hrund Guðmundsdóttur áður en hann flutti aftur til Noregs.
„Þegar ég flutti aftur til Noregs hóf ég störf á samskiptasviði þingflokks Framfaraflokksins. Ég starfaði fyrir hann fram að kosningunum nú í haust og var í raun hættur og búinn að hefja störf í einkageiranum. En eftir aðeins 14 daga þar var svo hringt í mig, og mér boðið þetta starf, þannig að það varð mjög stutt stopp,“ segir Reynir sem var enn á skrifstofu sinni þegar Mbl.is náði tali af honum. „Þetta gerist allt á svo fáum klukkustundum, þannig að ég er enn að koma mér fyrir.“
Ráðherrann sem Reynir aðstoðar heitir Ketil Solvik Olsen. Hann er annar varaformaður FrP og sat á þingi þangað til í haust, en var ekki í framboði í nýafstöðnum þingkosningum. „Ég starfaði með honum á þinginu, og nú þegar hann varð ráðherra þá sér hann um að skipa sér aðstoðarmenn sem hann vill fá með sér í ráðuneytin. Ég er auðvitað mjög ánægður með að hann hafi fengið mig með sér. Alls erum við þrír ráðgjafar frá FrP og einn frá Íhaldsflokknum (Høyre), samstarfsflokki FrP í ríkisstjórn.
Aðspurður hver stærstu verkefni samgönguráðuneytisins séu segir hann þau vera vega- og lestarkerfið. „Við í FrP höfum verið talsmenn þess að breyta vegakerfinu og finna nýjar leiðir til að fjármagna það. Nú eigum við eftir að setjast niður með starfsmönnum ráðuneytisins, leggja fram hugmyndir og sjá hvað er hægt að gera. Síðan er einnig verið að færa hafnarmálefni undir okkar ráðuneyti, en það er breyting sem flestir eru ánægðir með.“
Þetta er í fyrsta skiptið í 40 ára sögu Framfaraflokksins sem flokkurinn myndar ríkisstjórn. Reynir segir flokksmenn hlakka til að geta loksins látið verkin tala. „Það er fín tilbreyting að vera ekki lengur í stjórnarandstöðu, og geta loksins farið að framkvæma það sem við höfum lengi talað fyrir að eigi að gera.“ Hann segir flokksmenn hafa haft mikla trú á því fyrir kosningarnar í vor að flokkurinn kæmist í ríkisstjórn. „Það varð einhvers konar innanhúsbrandari hjá okkur, að fyrst Verkamannaflokknum tókst að komast í ríkisstjórn 40 árum eftir að hann varð stofnaður, þá hlýtur okkur að takast það líka,“ en haldið var upp á 40 ára afmæli Framfararflokksins í vor.
Þrátt fyrir að lengi hafi verið útlit fyrir að ríkisstjórnarskipti yrðu í haust, var alls ekki öruggt að FrP yrði aðili að nýrri stjórn. Eftir kosningarnar settust allir fjórir flokkarnir niður sem áður voru í minnihluta og skrifuðu undir yfirlýsingu um að flokkarnir væru sammála um það í meginatriðum hvað ný ríkisstjórn ætti að gera. Á endanum voru það samt bara Íhaldsflokkurinn og FrP sem settust í ríkisstjórn.
Í Noregi er mjög algengt að við völd sé minnihlutastjórn. „Það hefur nokkurn veginn myndast hefð fyrir því að svo sé, fyrir utan síðustu átta ár, en þá hefur verið hrein meirihlutastjórn undir forsæti Jens Stoltenbergs. Í þeirri stjórn færðist í raun allt löggjafarstarfið til ráðuneytanna og þingið varð bara aukaatriði. Á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar var ekkert að gerast inni á þingi. Núna verður þingið aftur mikilvægt og einstaka þingmenn geta haft áhrif á ríkisstjórnina,“ segir Reynir.
Í Noregi eru þingmenn skyldugir til þess að segja af sér þingmennsku ef þeir gerast ráðherrar. „Það sama gildir líka um þá sem eru ráðnir sem pólitískir starfsmenn ráðuneytanna. Dagurinn í dag var því stór dagur fyrir marga, meðal annars marga vini mína, því það tóku margir varaþingmenn sæti á þingi í stað þeirra sem gerðust ráðherrar,“ segir Reynir að lokum.
Sjá einnig: Ný ríkisstjórn tekur við völdum í Noregi