Gistiskýlið flytur á Lindargötu 48

Gistiskýli fyrir heimilislausa karlmenn verður flutt í þetta hús að …
Gistiskýli fyrir heimilislausa karlmenn verður flutt í þetta hús að Lindargötu 48 í vor. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gistiskýli fyrir heimilislausa reykvíska karlmenn verður flutt að Lindargötu 48 á vormánuðum 2014, en það hefur í rúm 40 ár verið rekið í Farsóttarhúsinu s.k. að Þingholtsstræti 25.

Þess er vænst að með flutningnum í nýtt húsnæði á Lindargötu verði stuðningur við heimilislausa karlmenn í borginni bættur verulega, en eins og mbl.is greindi frá í september hafa fleiri utangarðsmenn en nokkru sinni fyrr sótt í gistiskýlið það sem af er ári.

Nágrönnum verður boðið í heimsókn

Húsnæði Farsóttar uppfyllir ekki þau skilyrði sem nú eru gerð til starfsemi gistiskýla, meðal annars vegna öryggissjónarmiða og aðgengis, samkvæmt því sem fram kemur í bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til íbúa og rekstraraðila við Lindargötu og nágrenni þar sem fyrirætlanirnar eru kynntar.

Þar kemur einnig fram að framundan séu framkvæmdir á húsinu við Lindargötu 48, bæði innan og utan húss, vegna fyrirhugaðra flutninga. Þær hefjast á næstu mánuðum og er áætlað að þeim ljúki á vormánuðum 2014.

„Að framkvæmdum loknum verður Gistiskýlið flutt. Með þeirri andlitslyftingu sem gerð verður á húsinu að Lindargötu 48 bæði að innan og utan verður tryggt að húsið uppfylli allar aðgengis- og öryggiskröfur sem gerðar eru til gistiskýla um leið og útlit þess verður endurbætt. Að framkvæmdum loknum verður hagsmunaaðilum og nágrönnum boðið að skoða húsnæðið þar sem starfsemin verður kynnt nánar,“ segir í bréfinu.

Starfsemin ekki áberandi í hverfinu

Lítið hefur farið fyrir starfsemi gistiskýlisins í Þingholtunum. Húsið er opið frá 17:00 til 10:00 næsta dag og samkvæmt húsreglum skal vera komin á ró á miðnætti. Engin starfsemi er því í húsinu á daginn.

Markmið gistiskýlisins er að veita húsnæðislausum, reykvískum karlmönnum næturgistingu á meðan unnið er að lausn á húsnæðisvanda þeirra. Þar fá þeir morgunverð og kvöldhressingu í matsal og eru að lágmarki tveir starfsmenn á vakt hverju sinni. 

í Gistiskýlinu er mönnum jafnframt veitt ráðgjöf og þeir fá stuðning til að breyta aðstæðum sínum. Ef um ítrekaða dvöl er að ræða eru þeir í tengslum við félagsráðgjafa á þjónustumiðstöðvum.

Í bréfi velferðarsviðs segir að reynslan af rekstrinum að Þingholtsstræti 25 sé sú að gestir séu lítið á ferðinni í nágrenni hússins, nema þegar húsið opnar síðdegis og á morgnanna þegar það lokar.

Ekki þarf að breyta deiliskipulagi

Lindargata 48 er á skipulagssvæði þar sem gert er ráð fyrir blandaðri starfsemi af margvíslegum toga. Gildandi deiliskipulag að svæðinu var samþykkt í borgarráði 13. apríl 2004 og er notkun hússins ekki sérstaklega skilgreind í deiliskipulagi. Samkvæmt Fasteignamati ríkisins er húsið skráð sem iðnaðarhús-næði.

Þar sem eingöngu er verið að óska eftir að breyta innviðum hússins og notkun á tilteknum stað, þarf ekki að breyta deiliskipulagi en sækja þarf um byggingarleyfi, að því er fram kemur í bréfi Velferðarsviðs.

Samkvæmt skipulagslögum þarf ekki að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn þegar deiliskipulag er í gildi. Starfsemin samrýmist ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 um blandaða byggð og hefur Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur ekki gert skipulagslegar athugasemdir við að breyta notkun hússins.

Gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúðarhúsa og ýmiss konar …
Gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúðarhúsa og ýmiss konar starfsemi á reitnum þar sem gistiskýlið flytur. Reykjavíkurborg
Farsóttarhúsið að Þingholtsstræti 25 hefur verið skjól útigangsmanna síðan á …
Farsóttarhúsið að Þingholtsstræti 25 hefur verið skjól útigangsmanna síðan á 8. áratugnum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka