Útigangsmenn kveðja Farsótt

Farsótt er reisulegt 128 ára gamalt hús sem setur svip …
Farsótt er reisulegt 128 ára gamalt hús sem setur svip sinn á Þingholtin. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Að meðaltali 1-2 útigangsmönnum hefur í ár verið vísað á hverri nóttu frá Farsóttarhúsinu, gistiskýlinu í Þingholtsstræti. Í vor verður starfsemin flutt í stærra hús að Lindargötu, þar sem leysa má vandann með því að bæta dýnum á gólfið þegar á þarf að halda.

Ekki hefur verið ákveðið hvernig hið sögufræga Farsóttarhús verður nýtt. Húsið, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, er tæplega 140 ára gamalt og því friðað, en þó ekki friðlýst.

Nafnið upprunnið á 3. áratugnum

Timburhúsið þrílyfta að Þingholtsstræti 25 var reist af Sjúkrahúsfélagi Reykjavíkur, á árunum 1884-1885, og var eina sjúkrahús Reykjavíkur þar til Landakotsspítali tók til starfa árið 1902.

Bæjarstjórn Reykjavíkur fékk húsið að gjöf frá Sjúkrahúsfélaginu árið 1912, með því skilyrði að stofnaður yrði „Sjúkrahússjóður Reykjavíkurbæjar“ sem gera skyldi bæði ríkum og fátækum sem þyrftu á sjúkrahúsvist að halda jafnt undir höfði.

Um tíma voru leiguíbúðir í húsinu en árið 1917 lagði héraðslæknir Reykjavíkur til að það yrði gera að farsóttarsjúkrahúsi og tók það til starfa í september 1920. Taugaveiki, skarlatssótt og barnaveiki gengu þá um Reykjavík og til að hefta útbreiðslu þeirra varð að einangra sjúklingana.

Allar götur síðan hefur húsið gengið undir nafninu Farsótt, þótt starfsemi sjálfs farsóttarsjúkrahússins hafi lokið þar árið 1956. Næsta áratuginn voru þar aðallega vistaðir áfengis- og taugasjúklingar svo kallaðir en í 44 ár eða frá 1969 hefur húsið verið notað sem gistiskýli fyrir heimilis- og vegalausa.

Eldhætta takmarkaði starfsemina

Í Farsóttarhúsinu eru aðeins 20 rúm í húsinu og vegna eldvarnaröryggis hefur ekki verið heimilt að bregðast við með því að bæta við rúmum þegar ásókn er mikil, eins og verið hefur síðustu mánuði.

Í ár hafa fleiri sótt í gistiskýlið en nokkru sinni fyrr og nýtingin verið um 97%. Að meðaltali hefur þurft að vísa 1-2 frá á nóttu, en allt að 7 þegar verst lætur. Færst hefur í vöxt að heimilislausir óski eftir næturgistingu í fangaklefum lögreglu og má ætla að þar séu stundum á ferðinni menn sem ekki fengu inni í Farsótt, þótt það sé ekki vitað fyrir víst þar sem óheimilt er að bera saman kennitölurnar.

Farsótt er því sprungin sem gistiskýli, en úr þessu verður bætt í vor þegar starfsemin flytur í nýtt húsnæði að Lindargötu 48 eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag.

Hægt verður að bæta við dýnum eftir þörfum

Starfseminni verður ekki breytt við flutninginn á Lindargötu, en aðstaðan batnar. „Þar verður meira pláss, en það er ekki búið að taka neina ákvörðun um fjölgun rúma,“ segir Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar- og Hlíða.

„Miðað við reynslu okkar á árinu þarf ekki endilega að fjölga rúmum, en það þarf að mæta því þegar það er meiri ásókn heldur en 20 manns sum kvöldin. Þannig að það var tekin sú ákvörðun að finna húsnæði þar sem mögulegt er að leggja dýnur á gólf, svo ekki verður lengur vísað frá.“

Aðspurður hvað valdi þessari auknu ásókn segir Sigtryggur að það sé nokkuð sveiflukennt hvernig hópurinn er saman settur. „Við getum tengt það auknu atvinnuleysi og þá sérstaklega í hópi útlendinga. Það hefur fjölgað í hópi útlendinga, en þeir eru allir með íslenska kennitölu og lögheimili í Reykjavík.“

Í lok september voru útlendingar um þriðjungur hópsins sem leitaði næturgistingar í Farsótt, en Sigtryggur segir að í október hafi það einhverra hluta vegna breyst. „Einhverjir hafa kannski farið í meðferð, einhverjir fengið húsnæði eða jafnvel flutt úr landi. Þannig að það hefur fækkað í þessum hópi núna, en hvað það endist lengi getum við ekki sagt til um.“

Enn má sjá flísagólfið þar sem áður stóð líkskurðarhús í …
Enn má sjá flísagólfið þar sem áður stóð líkskurðarhús í bakgarði gamla spítalans við Þingholtsstræti. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Gistiskýli fyrir heimilislausa karlmenn verður í vor flutt í þetta …
Gistiskýli fyrir heimilislausa karlmenn verður í vor flutt í þetta hús að Lindargötu 48. mbl.is/Ómar Óskarsson
Á suðurhlið Farsóttarhússins eru dyr með tvöfaldri hurð. Ekki er …
Á suðurhlið Farsóttarhússins eru dyr með tvöfaldri hurð. Ekki er vitað hvort sú hurð er upphafleg. Sverrir Vilhelmsson
Útigangsfólk á Austurvelli.
Útigangsfólk á Austurvelli. mbl.is/Jakob Fannar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka