Vill búa til íslenskan hrylling

Erlingur Óttar Thoroddsen með verðlaunagripinn Skully, ásamt öðrum handritshöfundi myndarinnar, …
Erlingur Óttar Thoroddsen með verðlaunagripinn Skully, ásamt öðrum handritshöfundi myndarinnar, Brian McAuley.

„Þetta er rosalega fín byrjun og við erum í skýjunum,“ segir Erlingur Óttar Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður, sem hlaut í gærkvöldi verðlaun á Screamfest, stærstu hryllingsmyndahátíð Norður-Ameríku, fyrir stuttmyndina The Banishing.

Erlingur var staddur í Los Angeles í Kaliforníu þegar mbl.is ræddi við hann og var á leið heim til sín í New York eftir stuttan svefn í kjölfar verðlaunaathafnarinnar í gær.

Draumurinn að sögn Erlings er að gera íslenska hryllingsmynd, enda efniviðurinn ríkulegur í íslenskum sagnaarfi.

Kominn með fótinn inn um dyrnar

Erlingur hlaut svo kölluð Launchpad Award á Screamfest hátíðinni, en þau verðlaun eru ætluð efnilegasta leikstjóranum. Framleiðslufyrirtækið Matador Pictures stendur að verðlaununum og þeim fylgir að Erlingur er nú kominn með annan fótinn inn um dyrnar hjá þeim með góðar líkur á því að Matador fjármagni næsta verkefni hans.

„Allt svona skiptir máli, sérstaklega þar sem við sem komum að myndinni erum öll bara nýútskrifuð úr skóla þannig að við erum ekki komin með umboðsmann eða neitt svoleiðis og það getur verið erfitt að komast að.“

Að auki fékk hann verðlaunagripinn „Skully“ sem hannaður var af listamanninum Sam Winston, sem nú er látinn, og þykir mjög eftirsóknarverður. „Þetta verður sett upp á einhverjum mjög áberandi stað heima hjá mér,“ segir Erlingur og hlær.

Búinn að vera að síðan í menntaskóla

Erlingur nam kvikmyndaleikstjórn við Columbia háskólann í New York, þar sem hann býr enn. „En ég er búinn að vera að skrifa handrit og gera stuttmyndir alveg síðan í menntaskóla. Misgóðar náttúrulega, en þær batna vonandi með árunum.“

The Banishing var heimsfrumsýnd á Reykjavík International Film Festival (RIFF) í september en frumsýnd í Norður-Ameríku á Screamfest. Erlingur leikstýrir myndinni, en handritið skrifuðu þau Brian McAuley og Jacey Heldrich. 

„Þau komu til mín með verkefnið fyrir rúmu ári og báðu mig um að vera með þeim í að gera myndina, þannig að þetta var mikil samvinna okkar þriggja,“ segir Erlingur.

Huldukona á íslenska hálendinu

The Banishing er þó ekki fyrsta mynd hans sem fer víða og nýtur velgengni, því í fyrra frumsýndi hann stuttmyndina Child Eater sem vakti töluverða athygli og verður, ef allt fer að óskum, endurgerð í fullri lengd á næsta ári.

Erlingur segist líka eiga sér draum um að gera hrollvekju á Íslandi. „Ísland á svo rosalegan sagnaarf með óhugnanlegum sögum, það er eiginlega synd að það sé ekki búið að gera meira með þær. Ég er með eina hugmynd í vinnslu sem er komin nokkuð langt sem fjallar um fólk uppi á hálendi sem lendir í ógöngum og hittir huldukonu. Það er mynd sem mig langar til að gera á Íslandi.“

Í millitíðinni hefur Erlingur þó í nógu að snúast. Áður en hann fór til Los Angeles til að sýna The Banishing var hann á kvikmyndahátíð í Denver í Colorado með Child Eater, sem enn er á ferðalagi. Á næstunni bíður hans að fylgja eftir velgengni beggja mynda auk þess sem hann segist hafa bunka af verkefnum sem bíði bara eftir að fara í tökur.

En hvers vegna allur þessi hryllingur?

„Þetta er búið að blunda í mér alveg síðan ég var krakki. Ég hef alltaf haft áhuga á hryllingsmyndum og var mikið að segja öðrum krökkum í skólanum lygasögur um Freddy Krueger. Ég veit samt ekki hvort ég er rétta manneskjan til að segja hvaðan þetta kemur. Hvort þetta er eitthvað sálfræðilegt,“ segir Erlingur hlæjandi.

„Það sem mér finnst skemmtilegast við hryllingsmyndir er að þú getur sagt sögur sem eru sannar og snerta mann, en getur sett þær í súerralískt umhverfi. Í hryllingsmyndum er alltaf einhver vinkill sem er öðru vísi. Mér finnst gaman að horfa á raunsæjar myndir, en sem kvikmyndagerðarmaður finnst mér meira spennandi að geta gert eitthvað sem fólk sér ekki fyrir og hræra aðeins upp í því.“

Stiklu úr The Banishing má sjá hér að neðan:

Stilla úr hrollvekjunni The Banishing.
Stilla úr hrollvekjunni The Banishing.
Erlingur Óttar Thoroddsen er með ýmis verkefni á prjónunum bæði …
Erlingur Óttar Thoroddsen er með ýmis verkefni á prjónunum bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert