Hera Björk flytur til Chile

Hera Björk Þórhallsdóttir
Hera Björk Þórhallsdóttir Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er ekki á hverjum degi sem svona tækifæri gefst og ákváðum við því að stökkva fram af brúninni,“ segir Hera Björk Þórhallsdóttir, söngkona, en hún hyggst flytja ásamt fjölskyldu sinni til Chile í upphafi næsta árs og hefur sett hús sitt hér á landi á sölu.

Of kostnaðarsamt að fljúga fram og til baka

Hera segist með þessu ætla að fylgja eftir sigri sínum í Viña Del Mar Festival keppninni sem fór fram í lok febrúar á þessu ári. Keppnin er sögð ein sú áhrifamesta í Ameríku og hefur sigurinn opnað marga möguleika fyrir söngkonuna. „Ég hef þurft að segja nei við þátttöku á nokkrum hátíðum vegna þess að ég er of langt í burtu,“ segir Hera í samtali við mbl.is. Hún segir að of kostnaðarsamt sé að fljúga til Suður-Ameríku til að taka  þátt í svona hátíðum og ákvað fjölskyldan því flutning til Chile í sameiningu.

Niðurstaðan var sú að fjölskyldan mun flytja til Chile í febrúar á næsta ári. „Þarna úti er gríðarlegur markaður og maður er búinn að vera duglegur hér á landi síðustu áratugi. Við stefnum að því að læra spænsku og skoða heiminn,“ segir Hera.Fyrsti áfangastaður fjölskyldunnar verður Viña Del Mar, staðurinn þar sem keppnin sjálf er haldin ár hvert. Þar á fjölskyldan að sögn Heru góða að og munu þau í framhaldinu ákveða hvar þau vilja búa.

Kemur ef til vill inn sem dómari

Hera segir að í Chile sé gríðarlega mikið um tónlistarhátíðir og verður eflaust nóg að gera hjá henni á næsta ári. Þá mun hún líklega fá hlutverk í næstu Viña Del Mar Festival. „Það er í burðarliðunum að ég komi inn sem dómari í keppnina og mun það nýtast vel fyrir mig, verði það að veruleika,“ segir Hera. „Við stökkvum út í óvissuna og treystum á guð og gæfuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert