„Í dag er alþjóðadagur matreiðslumeistara og í tilefni af því sjáum við um að elda fyrir skjólstæðinga Samhjálpar,“ segir Hafliði Halldórsson, forseti klúbbs matreiðslumeistara.
„Við buðum upp á morgunmat í morgun, og svo núna klukkan tvö verður boðið upp á lambalæri með öllu tilheyrandi í síðbúinn hádegismat.“ Klúbbur matreiðslumeistara er hluti af Alþjóðasamtökum matreiðslumeistara, en matreiðslumeistarar víða um heim hafa nýtt 20. október til þess að vinna að verkefnum sem tengjast góðgerðarmálum.
„Í gegnum tíðina höfum við unnið m.a. með Sólheimum í Grímsnesi, og svo unnum við lengi með beinverndarfélaginu því beinverndardagurinn hefur lengi líka verið haldinn hinn 20. október. Auk þess að styðja við gott málefni er þessi dagur líka til þess að vekja athygli á matargerð og heilsu,“ segir Hafliði að lokum.