Strimill, hallæri, náriðill, æxlunarfæri og karmur. Þessi orð eru á meðal þeirra sem borist hafa í samkeppni um ljótasta orðið í íslenskri tungu sem fer nú fram á Facebook. Keppnin hófst síðastliðinn föstudag og hefur fjöldi tillagna borist síðan. Keppninni lýkur þann 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu.
Ákveðnar reglur gilda í leitinni að ljótasta orðinu. Meginreglan er sú að aðeins íslensk orð eru gjaldgeng. Í keppninni er ekki lagt mat á merkingu þeirra hugtaka sem orðunum er ætlað að tákna, heldur aðeins skorti á fegurðargildi orðanna sjálfra, líkt og kemur fram í reglum á Facebook-síðu keppninnar.
Telja þátttakendur að orðin hrææta, klof, hnakkastykki, æxli, safabóla, strimill, almúgur, dýraníð, hreðjar, skrípaleikur, kex, frænka, verðtrygging, hrönn, kekkjótt, hallæri, afþreying, úlnliður, kjölfestufjárfestir, slímtappi, næpa, hné, mokveiði, bjúgverpill, náriðill, hóstasaft, æxlunarfæri, karmur, keppur, mygla, ráðuneyti og óbyrja eigi heima á listanum yfir ljótustu orð íslenskrar tungu. Þess ber þó að geta að þetta er aðeins hluti þeirra orða sem borist hafa.
Fæstum orðanna fylgir rökstuðningur og er því ekki alltaf ljóst hvað býr að baki mati þátttakenda. Þó er ljóst að merking hugtakanna sem orðunum er ætlað að tákna spilar greinilega inn í í nokkrum tilvikum, enda eru fyrirbærin náriðill, dýraníð og slímtappi almennt ekki talin jákvæð í huga fólks.
Nokkur orð gætu hafa komist í keppnina vegna þess hvernig stafirnir sem mynda orðin raðast saman. Framburður orða er miserfiður og því gætu orð sem erfitt er að segja hratt og örugglega án örðugleika lent á listanum vegna þess að þau þykja ekki nógu hljómfögur. Orð sem innihalda tvo tvöfalda samhljóða, líkt og hnakkastykki og kekkjóttur, gætu til að mynda hafa borist vegna þessa.
Orðið frænka hefur einnig ratað í keppnina. Eflaust eiga flestir góða frænku að, þó það sé vissulega ekki algilt. Telja má líklegt að orðið hafi fengið nýja merkingu í huga margra þegar
eða Erpur Eyvindarson, söng um frænkur um árið í samstarfi við hljómsveitina Sykur, en þar stærir hann sig af samskiptum sínum við nokkrar slíkar. Í slangurorðabókinni kemur fram að orðið frænka sé slangur yfir stelpu eða gellu.Þá eru sérnöfn almennt ekki tekin gild í keppnina. Í reglunum kemur fram að þau lúti öðrum lögmálum en önnur orð og mat manna á sérnöfnum litist gjarnan af því að þau eru sérnöfn. Þá hafi þau ákveðna merkingu í huga fólks og líkur séu á því að einhverjir einstaklingar eða hópar beri téð sérnöfn og bjóði því upp á óþarfa leiðindi að leyfa slík orð í keppninni.
Þegar hafa orðin Sjálfstæðisflokkur og Samfylking borist í keppnina og má gera ráð fyrir að mat þeirra sem lögðu til orðin hafi líklega litast af áliti þeirra á stjórnmálaflokkunum. Sé einhver þeirrar skoðunar að eitt eða fleiri mannanöfn sé það ljótasta í íslenskri tungu, verður það þó ekki tekið gilt.
Eins og áður segir stendur keppnin til og með 16. nóvember næstkomandi og geta áhugasamir sent inn ljót íslensk orð. Hvaða nafnorð, lýsingarorð, sagnorð, atviksorð eða töluorð þykir þér ljótast? Tillagan sem flestum líkar við (e. like) ber sigur af hólmi og fer sá sem leggur til ljótasta orðið eitthvað ljótt í verðlaun. Flóknara er það ekki.