Ætlaði ekki að tilkynna árásina

Stokkseyri.
Stokkseyri. www.mats.is

Maðurinn sem varð fyrir árás á heimili sínu á Stokkseyri að kvöldlagi á tímabilinu 25. til 27. september síðastliðinn ætlaði ekki að tilkynna hana af ótta við árásarmennina. Lögregla hefur ekki fengið upplýsingar um nöfn mannanna er ruddust grímuklæddir inn á heimili mannsins.

Mbl.is hefur hins vegar greint frá því, að grímuklæddir menn hafi herjað á vitni í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og fleirum. Heimildir mbl.is herma að árásarmennirnir tengist Stefáni Loga og að vitni hafi verið beitt grófu ofbeldi.

Hjá lögreglunni á Selfossi fengust þær upplýsingar að enginn hafi verið handtekinn vegna árásarinnar á Stokkseyri og húsráðandi hafi ekki viljað eða getað gefið upp nöfn árásarmannanna. Raunar hafi hann alls ekkert ætlað að tilkynna árásina en lögregla hafi frétt af henni eftir öðrum leiðum.

Maðurinn var meðal annars beittur ofbeldi með hamri þannig að hann fingur- og handarbrotnaði.

Málið er í rannsókn að sögn lögreglu og ef einhver veit meira en lögregla nú þegar þá eru upplýsingar mótteknar í síma lögreglunnar á Selfossi í síma 480 1010.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert