„Elítan“ taki hendur úr vösum

Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í gærkvöldi kom fram hörð gagnrýni á aðgerðaleysi ríkistjórnarinnar í skuldavanda heimilanna og á framkomið fjárlagafrumvarp, þar sem boðaðar eru frekari álögur á launafólk, álögur sem koma til með að koma sérstaklega illa við láglaunafólk.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem m.a. segir að Framsýn stéttarfélag krefjist þess að ríkistjórnin standi við gefin kosningaloforð og taki á skuldavanda heimilanna strax. „Í huga Framsýnar er orðið strax ekki teygjanlegt hugtak,“ segir í ályktuninni.

 Þá gagnrýnir Framsýn framkomið fjárlagafrumvarp sem hún segir fela í sér auknar álögur á launafólk í formi aukinnar skattheimtu s.s. í formi hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, innlagna á sjúkrahús, bensín- og olíugjaldi.

 Framsýn telur mikilvægt að svigrúm til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna í formi hærri persónuafsláttar og hvetur því stjórnvöld til að endurskoða boðaðar breytingar á tekjuskatti með þessi sjónarmið í huga.

 „Framsýn skorar jafnframt á elítuna að taka hendur úr vösum og leggjast á árarnar með almennu verkafólki með það að markmiði að byggja upp þjóðfélag án ójöfnuðar og misskiptingar.  Við annað verður ekki unað enda núverandi ástand þjóðarskömm,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert