„Við erum að meta þessa ábendingu og það verður tekin ákvörðun um framhaldið innan skamms tíma,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, um bréf þar sem pólskur verkstjóri hjá fiskvinnslufyrirtækinu Jakobi Valgeir ehf. í Bolungarvík er sakaður um að innheimta 1.000 evrur (sem jafngildir um 166.000 kr.) af öllum Pólverjum sem fá vinnu hjá fyrirtækinu.
Vestfirski fréttavefurinn Bæjarins besta greindi fyrst frá málinu í vikunni, en fréttavefnum barst einnig eintak af umræddu bréfi. BB segir að í bréfinu séu birt nöfn 20 Pólverja sem hafi greitt verkstjóranum umrædda upphæð, þ.e. 1.000 evrur á mann, en það samsvarar um 3,2 milljónum kr.
Hlynur segir í samtali við mbl.is að bréfið hafi borist lögreglunni rétt fyrir síðustu helgi en að engin formleg kæra hafi borist.
„Rannsókn mála hefst með tvennum hætti. Annað hvort berst formleg kæra eða þá að lögreglan hefur rannsókn af fyrra bragði, þó að kæra hafi ekki borist,“ segir Hlynur. Hann tekur fram að síðarnefnda atriðið eigi þó ekki við um öll mál; öll mál verði ávallt að vega og meta í hvert sinn.
Aðspurður segir Hlynur að bréfið sé ónákvæmt að ýmsu leyti. T.d. sé uppruni þess ekki alveg ljós, þ.e. hver eða hverjir sendi bréfið. Þá bætir hann við að efni bréfsins sé ábending til lögreglu fremur en kæra. „Okkur hefur ekki borist formleg kæra en við tökum þetta sem ábendingu og við tökum hana alvarlega,“ segir Hlynur.
„Við erum að ráða í bréfið og við tökum ákvörðun innan skamms tíma hvaða stefnu þetta tekur,“ segir Hlynur og bætir við að öll skref þurfi að stíga með varúð.
Lárus Benediktsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, segir í samtali við mbl.is málið hafi ekki borist á borð félagsins. „Ekki einn einasti [hefur haft samband vegna málsins]. Það er vandamálið. Af hverju ekki, spyr maður sig,“ segir Lárus.
Hann tekur fram að svona mál séu ekki kjaramál heldur lögreglumál og hann hvetur hlutaðeigandi til að kæra málið til lögreglu. „Þá fer þetta í rannsókn og þá kemur sannleikurinn í ljós; hvað er satt og hvað ekki.“
Lárus segir ennfremur að sá orðrómur hafi verið á kreiki um nokkurt skeið að verið væri að innheimta fé af pólskum starfsmönnum fyrirtækisins með þessum hætti. Málið hafi aftur á móti ekki fengist staðfest með formlegum hætti. „Ef þetta er satt, þá er þetta viðbjóðsleg framkoma,“ segir Lárus og bætir við: „Við viljum ekki sjá svona í okkar samfélagi.“
Þetta er ekki fyrsta sinn sem svona fréttir berast að sögn Lárusar. Hann telur að svona háttsemi sé án efa nokkuð útbreidd hér á landi, en hann tekur þó fram að hann hafi ekkert staðfest í þeim efnum. „Ég vil hvetja alla um allt land, ef þeir hafa heyrt eitthvað um þetta, að reyna að afla upplýsinga hvort þetta er virkilega svona á fleiri stöðum. Þetta þarf að uppræta.“
Hann segir að fyrir um 15 árum hafi mál komið upp í Bolungarvík sem svipar til málsins sem er nú á borði lögreglunnar. Þá var um að ræða pólska konu sem var sökuð um að rukka 1.000 dollara af starfsmönnum sem fengu vinnu hjá öðru fiskvinnslufyrirtæki. Lárus segist hafa rætt við marga pólska starfsmenn í tengslum við það mál og beðið þá um að upplýsa sig um hvað væri satt og rétt. Það hafi þeir hins vegar ekki viljað gera. Lárus telur að þeir hafi ekki þorað að tjá sig vegna hótana, en þeir hafi eflaust átt í hættu á að missa vinnuna.
Samfélag Pólverja er nokkuð stórt í Bolungarvík en þeir eru yfir 150 talsins í bæjarfélagi sem telur rúmlega 900 íbúa.