Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði sex liðsmenn vélhjólasamtakana Devils Choice í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem komu til landsins með flugi nú síðdegis. Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögreglan hefur mál mannanna nú til skoðunar samkvæmt upplýsingum mbl.is, en gera má ráð fyrir að þeim verði vísað úr landi.
Líkt og fram hefur komið, voru þrír Norðmenn, sem eru liðsmenn Devils Choice, handteknir á Keflavíkurflugvelli í gær við komuna til landsins. Þeir eru nú farnir úr landi.
Vélhjólasamtökin eru stuðningssamtök Vítisengla. Almennt er litið á Devils Choice sem glæpasamtök.
Mennirnir komu hingað til lands til að taka þátt í veisluhöldum hjá systursamtökum sínum á Íslandi. Íslensku samtökin hétu áður Hog Riders en tóku upp nafnið Devils Choice MC Iceland árið 2011. Samkvæmt því sem kemur fram á vefsvæði samtakanna eru þau að ná töluverðri útbreiðslu á Evrópu og þá helst á Norðurlöndunum.