Norðmenn ekki hafðir með í ráðum

Tillaga Evrópusambandsins um að Íslendingar fái 11,9% árlegs makrílkvóta og Færeyingar 12% nýtur ekki stuðnings Norðmanna. Þetta er haft eftir Audun Maråk, framkvæmdastjóra Samtaka norskra útgerðarmanna, á vefsíðu samtakanna. Hann segir samstöðu á meðal norskra stjórnvalda, útgerðarmanna og sjómanna um að ekki sé hægt að samþykkja aukinn kvóta til Íslendinga og Færeyinga umfram það sem Norðmenn og sambandið hafi komið sér saman um.

Fundur hófst í London í dag á milli strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshafið um mögulegt samkomulag um lausn makríldeilunnar. Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands, sagði í samtali við mbl.is að gert væri ráð fyrir að formlegar samningaviðræður hæfust á morgun en í dag hafi verið flutt erindi og vísindaráðgjöf og rannsóknir kynntar. Fundinum lýkur á föstudaginn.

„Ef Evrópusambandið er að spila einleik fyrir aftan bak Noregs og vill veita Íslendingum aukna hlutdeild umfram það sem það hefur verið sammála Norðmönnum um þá getur sambandið sjálft tekið á sig allan kostnaðinn af því í formi minni kvótahlutdeildar,“ segir Maråk en hann er fulltrúi í samninganefnd Noregs í London. Nefndinni er stýrt af Ann Kristin Westberg, deildarstjóra í norska viðskiptaráðuneytinu.

Maråk segist ekki sjá að tillaga Evrópusambandsins feli í sér neina lausn í málinu. Hún sé ekki niðurstaða viðræðna sem Norðmenn hafi tekið þátt í og Færeyingar hafi heldur ekki verið hafðir með í ráðum. Hann segir að svo virðist sem framkvæmdastjórn sambandsins hafi hvorki haft samráð við Noreg né eigin ríki í málinu. Hann segir norskan sjávarútveg ekki geta fallist á verra hlutskipti en norsk stjórnvöld hafi lagt áherslu á til þessa. Þá komi ekki til greina að veita Íslendingum heimild til þess að veiða makríl í norskri lögsögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert