Thelma fær ekki að bera vitni

Gunnar Þorsteinsson og Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hans, í Héraðsdómi …
Gunnar Þorsteinsson og Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Andri Karl

Dómari í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar, sem oftast er kenndur við Krossinn, féllst í hádeginu á kröfu Gunnars þess efnis að Thelma Ásdísardóttir fái ekki að gefa skýrslu við aðalmeðferð í málinu. Lögmaður kvennanna tveggja sem kröfðust þess segir ekki búið að ákveða með kæru til Hæstaréttar.

Gunnar stefndi Vefpressunni, útgáfufélagi Pressunnar, vegna fréttaflutnings af konum sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot. Hann krefst 15 milljóna í skaðabætur og afsökunarbeiðni frá tveimur konum og frá Vefpressunni; fimm milljóna frá hverjum aðila fyrir sig vegna umfjöllunar um ásakanir um kynferðisbrot.

Umfjöllunin var byggð á ummælum tveggja kvenna, Ástu Knútsdóttur og Sesselju Engilráð Barðdal. Lögmaður þeirra krafðist þess fyrir dómi í morgun að Thelma Ásdísardóttir fengi að bera vitni í málinu. Vísaði hún til þess að á árinu 2007, þegar Thelma starfaði hjá Stígamótum, hafi komið til hennar kona og sagði að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu Gunnars. Árið 2008 hafi svo komið önnur kona og borið svipaðar sakir upp á hann.

„Þegar Ásta og Sesselja fóru að leita aðstoðar fyrir þær konur sem þær koma fram fyrir ákváðu þær að hafa samband við Thelmu. Það varð úr að hluti þeirra kvenna sem komu fram opinberlega hittu Thelmu um mánaðamótin nóvember-desember 2010 og gengust undir meðferð hjá henni,“ sagði Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir lögmaður Ástu og Sesselju. „Í þessu máli hefur því verið haldið fram að um upplognar sakir sé að ræða. Gefist Thelmu kostur á að gefa vitni telja stefndu að hún geti upplýst um málsatvik að þessu leyti.“

Hún sagði jafnframt að þetta snerist um að upplýsa hvort ummælin sem féllu í umfjöllun Pressunnar séu rétt. Það sé því nauðsynlegur og sjálfsagður hlutur að Thelma beri vitni til að sýna fram á að Gunnar hafi brotið gegn fjölda kvenna. „Hún býr yfir vitneskju í þá veru og framburður hennar kann að varpa ljósi á málsatvik.“

Að endingu sagði hún ljóst að ekki væri um sérfræðivitni að ræða heldur vitni sem beri um atvik máls.

„Ekki vitni um málsatvik“

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars, sagði ágreiningin mjög afmarkaðan og lagareglurnar mjög skýrar. Málið snúi að 1. mgr. 51. greinar laga um meðferð einkamála. Þar segi: „Hverjum manni, sem er orðinn 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, er skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem er beint til hans um málsatvik.“

„Þetta síðastnefnda, málsatvik, er lykilatriði fyrir úrlausn þessa máls. Mönnum er skylt að koma fyrir dóm og skýra frá atvikum máls en ekki sérfræðiatriði. Niðurstaðan ræðst af þessu,“ sagði Einar Hugi.

Hann vísaði til dómafordæma máli sínu til stuðnings og sagði niðurstöðuna eiga að liggja ljósa fyrir. „Því er ekki borið við í þessu máli að umrætt vitni hafi upplifað atvik þessa máls af eigin raun og því er hún ekki vitni um málsatvik. Það blasir því við að það ber að hafna kröfunni. Hún var ekki viðstödd þessa atburði og upplifði þá ekki af eigin raun. Þetta er nokkuð einfalt.“

Þá sagði hann ljóst af ræðu lögmanns kvennanna að um væri að ræða sérfræðivitni og vart hægt að hugsa sér skýrara dæmi. „Fyrst og fremst á þetta vitni að styrkja framburði þessara sex kvenna. [...] Það liggur fyrir að hún hitti að minnsta kosti einhverjar þær konur sem borið hafa stefnanda [Gunnar] sökum í þessu máli. En það var löngu eftir að ætluð atvik áttu sér stað. Það eru ekki nægjanleg tengsl.“

Dómari tók sér hálftíma umhugsunarfrest

Dómari málsins tók sér rúman hálftíma til kveða upp úrskurð og kom það lögmönnum mikið á óvart, enda óvanalegt að dómarar taki sér svo stuttan umhugsunarfrest. Að þeim tíma loknum voru úrskurðarorð lesin upp og kröfu kvennanna um að leiða Thelmu fyrir dóminn hafnað.

Fjórtán daga frestur er gefinn til að ákveða hvort úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar. Samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur er gert ráð fyrir aðalmeðferð í málinu 18. nóvember næstkomandi. Hvort það takist að halda þá dagskrá ræðst væntanlega af því hvort úrskurðurinn verður kærður.

Frétt mbl.is: Gunnar vildi fjölmiðlabann

Frétt mbl.is: Gunnar hyggst stefna Pressunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert