„Sömu menn heimsótt okkur í átta ár“

Devils Choice
Devils Choice mbl.is

„Það eina sem hefur breyst er að Norðmennirnir voru merktir Devils Choice nýverið. En þeir hafa heimsótt okkur merktir öðruvísi þannig að ég skil ekki hverju það ætti að breyta,“ segir Karl Þórðarson, formaður Devils Choice MC Iceland. Hann segir að sömu menn hafi heimsótt landið undanfarin átta ár.

Norskir liðsmenn samtakanna Devils Choice hafa undanfarna tvo daga verið stöðvaðir við komuna til landsins, handteknir og þeim vísað frá landi. Von er á fleiri Norðmönnum í dag en einnig Dönum. Allir eiga þeir það sammerkt að vera boðnir í árlega veislu Devils Choice á Íslandi sem fram fer um helgina.

„Þetta er afmælisveislan okkar. Og hefur verið haldin í átta ár en við vorum Hog Riders áður en við urðum Devils Choice fyrir tveimur árum,“ segir Karl. „Það hafa engin vandræði verið fyrr en núna. Við erum búnir að vera með þessi merki í tvö ár og erlendir liðsmenn Devils Choice hafa heimsótt okkur í þrjú ár, án nokkurra vandræða. Og þeir koma ekki aðeins í þessa veislu heldur hafa þeir heimsótt okkur á sumrin og ferðast um landið.“

Hann segist velta fyrir sér hvort tenging sé á milli þess að Norðmennirnir séu farnir að merkja sig Devils Choice og hvort samvinna milli lögregluyfirvalda í Noregi og Íslandi hafi orðið til þess að allt í einu núna séu menn stöðvaðir við komuna til landsins.

Eflaust höfðu fáir Íslendingar heyrt minnst á samtökin Devils Choice fyrr en á undanförnum dögum. Karl segir það lýsandi fyrir það sem hann kallar uppákomu hjá lögreglunni. „Það ætti að segja meira en mörg orð. Því við höfum verið hérna í átta ár og þessir sömu menn hafa verið að heimsækja okkur í þessi átta ár. Ógnin getur ekki verið mikil af þessum mönnum.“

Þrátt fyrir að svo virðist sem fáir erlendir gestir verði í veislunni segir Karl að hún fari engu að síður fram. Á annan tug liðsmanna eru í íslensku samtökunum en svo er íslenskum gestum boðið auk þess sem konur þeirra norsku liðsmanna sem vísað hefur verið frá eru á landinu og ætla að vera við veisluna. „Þær eru bara í verslunarferð í dag í Kringlunni og Smáralind.“

Hann segist gera ráð fyrir að lögreglan fylgist grannt með veislunni, en svo hafi einnig verið á undanförnum árum. „Lögreglan hefur verið fyrir utan klúbbhúsnæðið. En við höfum ekkert að fela og bara allt gott um eftirlit lögreglu að segja. Okkur er alveg sama um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka