Vilja meiri kvóta en Íslendingar

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Ljósmynd/Ragnhildur Kolka

Færeysk stjórnvöld eru ekki reiðubúin að samþykkja samkomulag í makríldeilunni sem felur í sér að Íslendingar fái jafn stóra hlutdeild í árlegum makrílkvóta og Færeyingar. Þetta er haft eftir Jakob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, á færeyska fréttavefnum Portal.fo í gær.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði í síðustu viku fram tillögu fyrir ráðherraráð sambandsins um að Íslendingar fengju 11,9% og Færeyingar 12%. Færeyingar hafa þegar lýst því yfir að þeir hafi ekki í hyggju að hvika frá fyrri kröfu sinni um 15%. Verði hins vegar ekki um gagnkvæmar veiðar að ræða í lögsögum strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf, sem funda nú í London um lausn makríldeilunnar, vilji þeir 23%. Búist er við því að tillaga framkvæmdastjórnarinnar verði lögð fram á fundinum í London.

Fram kemur í fréttinni að Vestergaard hafi rætt við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, símleiðis um stöðu makríldeilunnar síðastliðinn mánudag. Samkomulag væri í augsýn en því yrði ekki landað í þessari viku. Færeyingar myndu hins vegar ekki semja hvað sem það kostaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert