Lögreglan með Norðmann til skoðunar

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á Suðurnesjum tók í dag Dana og Norðmann til skoðunar á landamærum vegna gruns um að þeir tengist vélhjólasamtökum, en mennirnir komu til landsins með flugi í dag. Ákveðið var að hefta ekki för Danans eftir að hættumat frá greiningardeild ríkislögreglustjóra barst en Norðmaðurinn er enn til skoðunar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var Dananum sleppt þar sem hann þótti ekki vera ógn við allsherjarreglu og/eða almannaöryggi. Ákvörðun varðandi stöðu Norðmannsins mun væntanlega liggja fyrir síðar í kvöld. Lögreglan segir að kona hafi verið með Norðmanninum í för en henni var hleypt inn í landið. 

Lögreglan tekur fram að enginn hafi verið handtekinn í tengslum við þessi mál undanfarna daga heldur sé um skoðun á landamærum að ræða. Það er svo Útlendingastofnun og lögfræðingar við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sem taka ákvörðun um það hvort mönnum verði hleypt inn í landið eða snúið aftur til síns heima.

Í dag var norskum liðsmanni vélhjólasamtakanna, sem var tekinn til skoðunar á landamærum á Keflavíkurflugvelli í gær, sendur með flugi til Ósló. 

Alls er búið að vísa 10 mönnum úr landi sem eru liðsmenn vélhjólasamtakanna, sem yfirvöld telja að tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Þremur mönnum var vísað úr landi í fyrradag, sex í gær og einum í dag, sem fyrr segir. 

Lögreglan á Suðurnesjum hefur fylgst grannt með farþegavélum sem koma til landsins frá Norðurlöndunum í tengslum við mögulega komu manna sem tengjast vélhjólasamtökunum Devils Choice. Í dag ræddu lögreglumenn við á annan tug farþega sem komu til Ísands, en taka skal fram að um almennt eftirlit er að ræða og ekki allir grunaðir um að tengjast vélhjólasamtökum.

Fram hefur komið að mennirnir hafa verið að koma hingað til lands til að taka þátt í veisluhöldum hjá systursamtökum sínum á Íslandi. Íslensku samtökin hétu áður Hog Riders en tóku upp nafnið Devils Choice MC Iceland árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka