Íslendingar álíta kynferðisbrot vera alvarlegasta vandann í afbrotum hér á landi árið 2013, samkvæmt nýrri rannsókn. Þetta er í fyrsta sinn frá því mælingar hófust sem fíkniefnabrot eru ekki talin alvarlegasti vandinn
Jónas Orri Jónasson, meistaranemi í félagsfræði, hefur unnið samanburðarrannsókn um viðhorf Íslendinga til afbrota á árunum 1989-2013, undir leiðsögn Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings.
Niðurstöðurnar kynnti Jónas á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands í dag og sendi um leið frá sér ritstýrða grein um efnið.
Þar kemur fram að töluverðar breytingar hafa orðið milli ára á því hvaða afbrot er talið mesta vandamálið hér á landi. Algengast er að fíkniefnaneysla sé álitin mesta vandamálið, en í sex könnunum sem gerðar voru yfir tímabilið 1989-2013 nefnir a.m.k. þriðjungur Íslendinga fíkniefnaneyslu sem alvarlegasta vandann.
Mest var það helmingur þjóðarinnar, árin 1997 og 2002, sem áleit neyslu fíkniefna mesta vandamál afbrota. Jónas kemst að þeirri niðurstöðu að árið 1997 hafi verið mikið siðfár í samfélaginu vegna komu e-töflunnar til Íslands. Auk þess hafi á þessum tíma komið reglulega upp stór fíkniefnamál, sem hlutu mikla umfjöllun í fjölmiðlum, og gætu hafa ýtt undir áhyggjur af fíkniefnavandanum.
Árið 2013 mælist í fyrsta sinn annað afbrot alvarlegra en fíkniefnavandinn, því samkvæmt könnun sem framkvæmd var í febrúar og mars, töldu 36% þjóðarinnar kynferðisbrot vera mesta vandamálið hér á landi, á meðan 33% nefndu fíkniefnaneyslu.
Jónas telur ástæðuna vafalítið vera þá miklu umræðu sem varð í þjóðfélaginu í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um barnaníð. Í janúar birtu fjölmiðlar daglega fréttir um barnaníð og voru þessi brot því í brennidepli.
Áhugavert, en kannski ekki óvænt, er að sjá að töluverður munur er milli kynja á hvað hvaða afbrot eru talin mesta vandamálið. Bæði kyn líta á fíkniefnaneyslu sem mikið vandamál, en öll árin frá 1989-2013 telja konur kynferðisbrot meira vandamál heldur en karlar gera. Árið 2013 töldu 41% kvenna kynferðisbrot mesta vandamálið, en 32% karla.
Afstaðan snýst svo við þegar litið er á efnahagsbrot, því fleiri karlar en konur nefna slík brot sem mesta vandamál afbrota. Munurinn er mestur árin 2012 og 2013, eða rúmlega 10 prósentustig. Í ár töldu 24% karla efnahagsbrot vera mesta vandamálið, á móti 13% kvenna.
Jónas bendir á að þessi munur stafi líklega af því að algengara er að konur verði fórnarlömb kynferðisafbrota en karlar. Rannsóknir hafa sýnt að sá ótti vegur þungt í öryggiskennda kvenna.
Í þessu samhengi má geta þess að samkvæmt rannsókn Jónasar töldu 85% Íslendinga sig mjög eða frekar örugga eina á gangi að næturlagi í sínu byggðarlagi, en töluverður munur er þó á öryggiskennd kynjanna. Karlar telja sig mun frekar örugga eina á gangi en konur, því um 40% karla telja sig mjög örugga en aðeins um 22% kvenna.
Margt bendir til þess að fjölmiðlar hafi talsverð áhrif á viðhorf almennings til afbrota. Hér að ofan hafa verið nefnd dæmi um auknar áhyggjur af fíkniefnaneyslu og kynferðisbrotum í framhaldi af mikilli fjölmiðlaumfjöllun um slík mál.
Svipað er uppi á teningnum þegar horft er til efnahagsbrota og fjársvika. Áhyggjur af slíkum brotum ná vissum toppi árið 2012, þegar alls 31% svarenda töldu brot af því tagi vera mesta vandamálið hér á landi. Í síðustu mælingum á undan, árin 2002 og 1997, töldu aðeins um 5% svarenda efnahagsbrot mesta vandamálið.
Á heildina litið telja Íslendingar afbrot vera mikið vandamál í samfélaginu, en þó hefur aðeins dregið úr þeirri afstöðu. Árið 1994 töldu 88% Íslendinga afbrot mjög eða frekar mikið vandamál hér á landi, en 84% árið 2012.
Niðurstöður rannsókna Jónasar Orra Jónassonar og Helga Gunnlaugssonar um viðhorf Íslendinga til afbrota má nálgast á Skemmunni.