Munir, myndir og mótorhjól á vefnum

Um ein milljón færslna eru í gagnasafninu og hefur um …
Um ein milljón færslna eru í gagnasafninu og hefur um helmingur þeirra verið gerður aðgengilegur á vef sem er aðgengilegur almenningi.

Þeir sem vilja fræðast um listaverk, muni, ljósmyndir, fornleifar, hús, þjóðhætti eða örnefni geta nú farið á vefinn Sarp sem gerður hefur verið aðgengilegur fyrir almenning, en á honum er að finna um 500 þúsund færslur.

Fimmtíu söfn standa að Sarpi, þar á meðal Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Minjasafn Reykjavíkur, Mótorhjólasafnið og byggðasöfn víðsvegar um landið.

Áhugasamir grúskarar geta ekki bara skoðað vefinn, heldur eru þeir hvattir til að senda ábendingar um myndir, muni, verklag sem tengist hlutum sem fjallað er um, og annað slíkt. Þá geta þeir líka pantað ljósmyndir á vefnum.

Sarpur spannar alla Íslandssöguna

Sveinbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarfélags Sarps, segir það merkileg tímamót að aðgangur hafi verið opnaður að öllum þessum upplýsingum; í dag séu yfir milljón færslur í Sarpi, þeim fjölgi með hverjum deginum, og hafi almenningur nú aðgang að um helmingi þeirra.

„Það er svo margt þarna inni, myndasöfnin, listasöfnin, örnefni og ótal margt annað,“ segir hún. „Þetta er nútíminn, að allir þessir hlutir séu aðgengilegir almenningi á einum stað. Mörgum færslnanna fylgir líka áhugavert myndefni að skoða og átta sig á.“

Aðföngin á Sarpi spanna alla Íslandssöguna, frá landnámi til dagsins í dag og gerir öflug leitarvél notendum kleift að leita að því sem vekur áhuga þeirra.

Sarpur er rekinn í tengslum við landskerfi bókasafna og segir Sveinbjörg að það starfræki einnig vefinn Leitir.is sem auðveldi gestum að leita í ólíkum gagnabönkum og vísi þeim leið, meðal annars inn á Sarp.

„Það er ótrúlega margt skemmtilegt og áhugavert að finna á þessum vef,“ segir hún og hvetur alla til að athuga hvað má finna í Sarpi.

Söfnin um allt land geyma gríðarlega marga muni í geymslum …
Söfnin um allt land geyma gríðarlega marga muni í geymslum sínum. Nú er hægt að fræðast um þessa muni á vefnum, panta myndir af þeim og koma með ábendingar til safnamanna. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert