Lika Korinteli, georgísk kona sem fæddist árið 1970 í Abkasíuhéraði í Georgíu og sótti um hæli hér á landi árið 2005, fær svar frá innanríkisráðuneytinu fyrir áramót, samkvæmt upplýsingum þaðan. Kærumál konunnar er þar til meðferðar í sambandi við umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi.
Umsókn Liku var synjað af Útlendingastofnun (ÚTL) hálfu ári eftir að hún sótti fyrst um hæli og staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneytið úrskurð ÚTL hálfu ári síðar. Í ferli málsmeðferðar komu þær upplýsingar frá yfirvöldum Georgíu að þau gætu ekki borið kennsl á að Lika væri ríkisborgari í Georgíu. Þá sótti Lika um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2008 en fékk synjun frá ÚTL árið 2012 og var málinu áfrýjað til innanríkisráðuneytisins og er Lika enn að bíða eftir svari ráðuneytisins.
Lika getur ekki sýnt fram á þá pappíra sem ÚTL krefst af henni, en allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu. Safnið brann í stríðinu árið 1992 og Lika varð pappírslaus en stjórn Georgíu lét henni ekki í té nýja pappíra sem georgískum borgara. Þekkt mannréttindasamtök, „Human Rights Watch“, hafa bent á erfiðleika georgísks fólks sem bjó áður í Abkasíu við að fá formlega pappíra eins og vegabréf eða fæðingarvottorð.
Lika hefur unnið hér á landi og greitt skatta í mörg ár hefur ekki aðgang að velferðarkerfinu, ekki einu sinni sjúkratryggingakerfinu. Hún getur hvorki öðlast ökuréttindi né sótt um bankalán, þar sem hún hefur ekki lögheimili hérlendis og borgaraleg réttindi hennar eru mjög takmörkuð.
Frétt mbl.is: Ríkisfangslaus og án réttinda.