Reyndu rán með rörasprengju

Laugavegur.
Laugavegur. Rósa Braga

Þrír karl­menn komu fyr­ir dóm­ara við Héraðsdóm Reykja­vík­ur í morg­un vegna ákæru á hend­ur þeim vegna til­raun­ar til þjófnaðar og ráns þriðju­dag­inn 20. mars 2012. Mönn­un­um er gefið að sök að hafa reynt að brjót­ast inn í skart­gripa­versl­un við Lauga­veg og í kjöl­farið fremja vopnað rán í mat­vöru­versl­un.

„Ég og [...] vor­um seint að kvöldi að drekka og eft­ir smá-tíma kláruðum við allt og það var ekki annað að gera en að redda meira. Við átt­um eng­an pen­ing en hann kom með þá upp­ástungu að fara í versl­un sem hann vissi um á Lauga­vegi.“ Þannig lýsti ung­ur karl­maður aðdrag­anda þess að hann og fé­lagi hans fóru að skart­gripa­versl­un­inni við Lauga­veg. Þeir hringdu í þriðja mann­inn sem samþykkti að keyra þá á staðinn.

Ökumaður­inn sagðist ekk­ert hafa vitað af áformun­um en hann lagði bif­reiðinni við Amt­manns­stíg og beið í bíln­um á meðan hinir fóru upp á Lauga­veg. „Þeir hlaupa út og segj­ast vera komn­ir eft­ir smá­stund. Stuttu síðar heyr­ist svaka­leg spreng­ing og í kjöl­farið komu þeir aft­ur inn í bíl­inn.“

Menn­irn­ir notuðu röra­sprengju til að til að brjóta rúðu skart­gripa­versl­un­ar­inn­ar. Eitt­hvað fór þó ekki eins og áætlað var og sneru þeir til baka tóm­hent­ir. Spurður um það hvað rætt hafi verið eft­ir menn­irn­ir voru komn­ir aft­ur upp í bíl sagði ökumaður­inn: „Þeir ræddu aðallega um hvað það þetta var hár hvell­ur.“

Frömdu rán með blóðugri sprautu­nál

Ann­ar aðal­mann­anna lýsti því svo að þetta hefði ekki verið fyrsti viðkomu­staður­inn þetta kvöld. Þeir hafi fyrst farið í Miðhraun í Garðabæ og ætlað að brjót­ast inn í versl­un 66° norður. Frá því hafi hins veg­ar verið horfið.

Þar sem ekk­ert fékkst úr skart­gripa­versl­un­inni leituðu menn­irn­ir á önn­ur mið. Ákváðu þeir að ræna versl­un 10-11 í Gríms­bæ. Þar ógnuðu þeir starfs­manni versl­un­ar­inn­ar með blóðugri sprautu­nál og hnúa­járni. Enn beið bíl­stjór­inn í bíln­um. „Svo koma þeir til baka og með pen­inga­skúffu und­ir hend­inni. Ég varð þá mjög smeyk­ur, keyrði þá þangað sem þeir vildu og brunaði sjálf­ur heim,“ sagði hann um at­vikið.

Fjallað var um fleiri ákær­ur á hend­ur tveim­ur mann­anna við aðalmeðferðina í dag. Ann­ar þeirra er meðal ann­ars einnig ákærður fyr­ir hand­rukk­un en hinn fyr­ir að ráðast á unn­ustu sína og fyr­ir um­ferðarlaga­brot. Nán­ar verður greint frá mál­inu á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka