Gildandi löggjöf á Íslandi hvað varðar innflutning frá öðrum EES-ríkjum á fersku kjöti, unnum kjötvörum (s.s. pylsum) og á öðrum kjötvörum, er andstæð EES-samningnum. Þetta er niðurstaða formlegs áminningarbréfs sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi frá sér í dag.
Á árinu 2007 var löggjöf á sviði hollustuhátta og matvælaeftirlits tekin upp í EES- samninginn, svonefndur "hollustuháttapakki". Löggjöfin tók þó ekki gildi á Íslandi og í Noregi fyrr en 1. maí 2010. Ísland hélt tilteknum aðlögunum varðandi lifandi dýr og fiskimjöl og hafði 18 mánuði til viðbótar til að innleiða reglur um ferskt kjöt og aðrar kjötvörur, en engar efnislegar aðlaganir eru í gildi hvað ferskt kjöt varðar. Frá og með 1. nóvember 2011 tók EES-löggjöf um hollustuhætti á nýju kjöti, opinbert eftirlit og heilbrigðiseftirlit með dýrum að fullu gildi á Íslandi.
Samkvæmt gildandi löggjöf á Íslandi er innflutningur á fersku kjöti, unnu eða óunnu, kældu eða frosnu, svo og innflutningur á unnum kjötvörum og öðrum kjötvörum, háður leyfisveitingu. Innflytjendur verða að sækja um leyfi og leggja fram gögn til Matvælastofnunar, svo sem vottorð um að afurðirnar hafi verið frosnar eða sem staðfesta að þær séu ekki smitaðar af salmonellu.
ESA telur að þetta fyrirkomulag leyfisveitinga stangist á við tilskipunina um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan EES [1]. Sú tilskipun tilgreinir þær tegundir eftirlits sem hafa má með dýraafurðum innan EES. Fimmta grein tilskipunarinnar kveður sérstaklega á um að eftirlit á viðtökustað dýraafurða skuli takmarkað við stikkprufur.
Með því að krefjast þess að innflytjendur sæki um heimild til innflutnings og leggi fram margvísleg vottorð, er komið á kerfisbundnu eftirliti með innflutningi á afurðum frá EES- ríkjum, sem gengur lengra heldur en heimilt er samkvæmt tilskipuninni.
Þá verður sömuleiðis að hafa í huga að tilskipunin samræmir heilbrigðiseftirlit með dýrum innan EES. Samkvæmt fjölmörgum dómafordæmum Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins á sviðum samræmdrar löggjafar, geta aðildarríki ekki stuðst við 13. gr. EES-samningsins er m.a. lýtur að vernd lífs og heilsu manna eða dýra, til að réttlæta frávík frá samræmdri löggjöf.
Til vara, sé ekki talið, að íslensku reglurnar brjóti í bága við áðurnefnda tilskipun, telur ESA að þær séu ekki í samræmi við 18. gr. EES-samningsins, þar sem þær feli í sér óréttmætar viðskiptahindranir.
Formlegt áminningarbréf er fyrsta skref í meðferð samningsbrotamáls. Að tveimur mánuðum liðnum getur ESA ákveðið að leggja fram rökstutt álit. Hafi viðkomandi ríki ekki gert viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við rökstudda álitinu innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.