Hefði jákvæð áhrif á öllu EES-svæðinu

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, á fundi viðskiptaráðherra Norðurlandanna.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, á fundi viðskiptaráðherra Norðurlandanna. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Mögulegur fríverslunarsamningur á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna var einkum til umræðu á fundi norrænna viðskiptaráðherra sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sat í Osló í gærmorgun. Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að sérstaklega hafi verið rætt um hagsmuni EFTA-ríkjanna Íslands og Noregs í því sambandi.

„Ráðherrar voru sammála um að tækjust samningar hefði það jákvæð efnahagsleg áhrif á öllu EES-svæðinu. Þá var lagt til að Norðurlöndin skoði hvernig þau geti í sameiningu farið í markaðsátak á stórum og vaxandi mörkuðum og var ákveðið að ræða nánar hvernig staðið yrði að þessu verkefni,“ segir í tilkynningunni. Ennfremur hafi ráðherrarnir farið yfir þróun mála á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og væntingar til ráðherrafundar hennar sem haldinn verður í Indónesíu í desember. 

„Þeir voru hóflega bjartsýnir á að samningar náist um viðskiptaliprun og aukið svigrúm fyrir þróunarríki til útflutnings á landbúnaðarvörum.Þá ræddu þeir einnig hvernig viðskiptasamningar framtíðarinnar gætu tekið mið af sífellt örari tækniþróun, t.d. varðandi netverslun.“

Þess má geta að Karel De Gucht, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, lýsti hliðstæðum sjónarmiðum á fundi með Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra, á fundi þeirra í apríl síðastliðnum. Þá sagði De Gucht að nánustu viðskiptaríki sambandsins ættu hvað mesta möguleika á því að hagnast á fríverslun á milli þess og Bandaríkjanna. Það ætti meðal annars við um þau ríki sem stæðu utan Evrópusambandsins en ættu aðild að EES-samningnum.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, samþykktu ályktun að sama skapi á fundi sínum í Stokkhólmi í september þar sem sérstaklega var tekið fram að leita þyrfti leiða til þess að auka viðskipti og fjárfestingar á milli Bandaríkjanna, Íslands og Noregs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert