Draga skipið frá hrygningarsvæðum

Varðskipið Þór tók þátt í slökkvistörfum í morgun.
Varðskipið Þór tók þátt í slökkvistörfum í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Varðskipið Þór mun draga flutningaskipið Fernanda á svæði eins fjarri hrygningarsvæðum og veiðislóðum og kostur er. Þá er einnig markmið að komast á svæði þar sem vindátt er hagstæð miðað við hugsanlegt rek á skipinu ef þörf er á að hætta drætti á því af öryggisástæðum.

Þetta var ákveðið á samráðsfundi Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu þar sem rætt var um næstu skref vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda.

„Við ákvörðun næstu skrefa er horft til þess að lágmarka áhættu á að skipið sökkvi með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni.

Meðan aðstæður leyfa mun varðskipið Þór draga Fernanda á svæði eins fjarri hrygningarsvæðum og veiðislóðum og kostur er.  Þá er einnig markmið að komast á svæði þar sem vindátt er hagstæð miðað við hugsanlegt rek á skipinu ef þörf er á að hætta drætti á því af öryggisástæðum.  Ef svo færi að skipið sökkvi miðast aðgerðir við að sem minnstar líkur verði á því að olía berist á strönd með tilliti til hafstrauma.  Sem stendur er ekki talið óhætt að dæla sjó á Fernanda með tilliti til stöðugleika skipsins,“ segir í fréttatilkynningu.

Fylgst er náið með framvindu mála og staðan endurmetin eftir upplýsingum og aðstæðum hverju sinni.  Sem stendur ganga aðgerðir vel og varðskipið Þór siglir á 6 hnúta hraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert