Nýr forstjóri Landspítalans er formlega tekinn til við að bæta spítalann sem vinnustað, en mælingar sýna dvínandi starfsánægju þeirra sem þar vinna. Í síðustu viku kom saman stór hópur stjórnenda við spítalann til að fjalla um leiðir til að bæta úr.
„Eins og gefur að skilja tekur sumt lengri tíma en annað. Vissa hluti er þó hægt að gera strax,“ segir Páll Matthíasson í pistli á vef Landspítalans. Páll tók við sem forstjóri fyrir mánuði síðan og sagðist þá sjálfur vera mannasættir og nota samvinnu og samráð í sínum stjórnunarstíl.
Eitt af því sem hefur valdið óánægju er að læknanemar og aðrir nemar við spítalann njóti ekki sömu kjara og starfsfólk í mötuneytinu, þrátt fyrir að vinna þar kauplaust í allt upp í 15-16 klukkustundir á dag. Þessu hefur verið breytt frá og með deginum í dag, samkvæmt Páli.
„Sömuleiðis hefur verið ákveðið að héðan í frá verði kaffisopinn í matsölum okkar í boði hússins, segir í pistli forstjóra.
Annað sem margt starfsfólk hefur verið óánægt með er að lokað sé fyrir aðgang að samfélagsmiðlum eins og Facebook innan veggja spítalans. Þetta var ákveðið fyrir allöngu en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, að sögn Páls, og algengt nú að þessi miðill sé notaðir í samskiptum um fagleg málefni jafnt sem persónuleg.
Páll segir mikla framþróun eiga sér stað í notkun samfélagsmiðla í heilbrigðisþjónustu. „Við höfum ákveðið að feta okkur inn á þessar brautir á næstu vikum og setja upp fésbókarsíðu en þar horfum við innanlands til fordæmis Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta augljósa skrefið er hins vegar að opna fyrir aðgang starfsmanna að Facebook hér á spítalanum,“ segir forstjórinn.
Var það gert í dag, 1. nóvember, kl. 15:00.